Fyrst með vottað jafnlaunamerki

Hafnarfjörður hefur hlotið vottað jafnlaunamerki frá velferðarráðuneytinu.
Hafnarfjörður hefur hlotið vottað jafnlaunamerki frá velferðarráðuneytinu. Ljósmynd/Hafnarfjaðarbær

Hafnarfjarðarbær er fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að fá vottað jafnlaunamerki frá velferðarráðuneytinu. Markmiðið með innleiðingunni er að koma á og viðhalda launajafnrétti hjá Hafnarfjarðarbæ og uppfylla skyldur atvinnurekenda um að tryggja jafnan rétt kvenna og karla, greiða þeim jöfn laun og tryggja að þau njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Með vottun frá úttektaraðila, BSI á Íslandi, sem og jafnlaunamerkinu frá velferðarráðuneytinu, getur Hafnarfjarðarbær sannarlega staðfest að hann uppfyllir þær kröfur sem lagðar eru fram samkvæmt jafnlaunastaðlinum ÍST 85:2012. Þar má telja að tryggt verði að allar ákvarðanir um laun og kjör séu skjalfestar, rökstuddar og rekjanlegar,“ segir í tilkynningunni.

„Að allar verklagsreglur, vinnulýsingar og leiðbeiningar séu til staðar. Að allar lagalegar kröfur og aðrar kröfur séu uppfylltar. Að allar forvarnir og aðgerðaáætlanir liggi fyrir. Að öll ábyrgðarsvið og hlutverk lykilstarfsfólks sé skilgreint. Eins þá að launaákvarðanir endurspegli að sömu laun séu greidd fyrir sambærileg störf.“

Fram kemur að jafnlaunakerfi veiti stjórnendum skýrari sýn á launagreiningar, úrbótaverkefni, eftirfylgni með aðgerðum og staðfestingu þess að settri jafnréttisstefnu sé fylgt eftir.

„Við erum gríðarlega stolt af því að vera fyrsta sveitarfélag landsins að fá vottað jafnlaunakerfi. Það var heilmikið átak að fara í gegnum þessa vinnu og við erum stolt af og þakklát starfsfólki Ráðhússins fyrir hvað vinnan hefur gengið vel“ sagði Guðlaug Kristjánsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í tilefni innleiðingarinnar, að því er kemur fram í tilkynningunni.

„Fyrir utan hið augljósa, að vottunin tryggir jöfn laun óháð kyni, þá er hún um leið verkfæri til að viðhalda góðum aga við þessar ákvarðanir.“ 

Starfshópurinn sem stýrði innleiðingunni var skipaður af Andra Ómarssyni verkefnastjóra, Berglindi Guðrúnu Bergþórsdóttur mannauðsstjóra, Haraldi Eggertssyni verkefnastjóra og Lúvísu Sigurðardóttur gæðastjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert