Allt gleymist á toppnum

John Snorri í flugstöð Leifs Eiríkssonar í dag.
John Snorri í flugstöð Leifs Eiríkssonar í dag. mbl.is/Ófeigur

„Það er æðislegt að vera kominn heim. Þetta er þvílíkt góð tilfinning,“ sagði John Snorri Sig­ur­jóns­son þegar hann lenti á Keflavíkurflugvelli í dag, en hann er nú kominn heim eftir að hafa klifið þrjá af hæstu tind­um heims.

Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar John Snorri gekk út um hliðið í Leifsstöð, en fjölskylda hans tók á móti honum opnum örmum.

„Þetta var stórkostlegt“

John Snorri vann það þrekvirki í júlí að klífa næsthæsta fjall heims, K2 sem er 8.611 metrar á hæð. Áður hafði hann klifið fjallið Lhot­se í maí, en hann lauk ferðinni svo á því að klífa tindinn Broad Peak. Alls kleif hann því þrjá af hæstu tind­um heims, sem all­ir þeir yfir 8.000 metr­ar á hæð, en hann hefur verið í burtu frá því í byrj­un apríl.

Eng­inn ann­ar í heim­in­um nema John Snorri og sjerp­inn Tser­ing hafa farið á topp K2 og topp­inn á Broad Peak á sjö dög­um. Eng­inn hef­ur held­ur áður farið frá grunn­búðum upp á Broad Peak og aft­ur niður á tveim­ur dög­um.

En hvernig er tilfinningin að komast upp á topp? „Maður er búinn að reyna rosa mikið á sig og er örmagna, en þetta gleymist allt á toppnum. Ég tala nú ekki um það að fá svona frábært útsýni. Það var vont veður á leiðinni upp en þegar komið var á toppinn sá maður yfir allt. Við sáum sjóndeildarhringinn bogna og þetta var stórkostlegt,“ segir John Snorri.

Óvænt ánægja að setja met

Spurður um það hvort hann hafi ákveðið fyrirfram að klífa Broad Peak segir hann það hafa blundað í sér í töluverðan tíma. „Mig langaði til þess og hópurinn minn var öflugur og sterkur svo ég vissi að við næðum toppnum ef við færum af stað. Við ákváðum því að láta slag standa,“ segir hann. „Mér skilst svo að ég hafi sett met með því að gera þetta á sjö dögum en fyrra metið voru átta dagar. Svo var ég tvo daga frá grunnbúðum upp og niður.“

Var það þá óvænt ánægja að setja þessi met? „Já ég get sagt að það hafi verið óvænt ánægja. Ég vissi reyndar að ég gæti náð þessu átta daga meti sem tókst svo ég er rosa ánægður með það,“ segir John Snorri glaður í bragði.

Ganga John Snorra var hluti af áheitasöfnun fyrir Líf, styrktarfélag …
Ganga John Snorra var hluti af áheitasöfnun fyrir Líf, styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans. Formaður félagsins tók á móti honum í dag með blóm. mbl.is/Ófeigur

Varð skelkaður þegar náttúruöflin blöstu við

En varstu einhvern tímann hræddur um líf þitt? „Maður var alltaf var við snjóflóð í kringum sig og eitt sinn lenti ég í snjóflóði. Ég hef alltaf verið hræddur við flöskuhálsinn eða „bottle neck-ið“ en við vorum svo heppin því það var svo vont veður að við sáum það eiginlegs ekki. Þetta er svona trekt og svo fyrir ofan tekur við 210 metra hár ísjaki og ef það brotnar úr ísjakanum fer það niður trektina. Við vorum í mittisháum snjó og undir snjónum var ís. Þetta var rosa erfitt og við vorum svo lengi, eða um 5-6 tíma að koma okkur yfir „bottle neck-ið“ og upp á ísinn. Það myndi ég segja að hafi verið erfiðast. Það birti til og þegar þetta blasti allt við varð ég hálf skelkaður, þetta var óhugnanlegt því þetta var svo stórt og mikið. Þá var maður svo lítill í náttúrunni,“ segir hann.

Margir myndu kalla það klikkun að fara út í þetta. Hvernig myndirðu svara því? „Ja, þetta er það náttúrulega. Flest slysin, eða um 80% gerast á niðurleiðinni svo ég var frekar stressaður uppi. Við ætluðum að vera 8-10 tíma en enduðum á því að vera 17 tíma svo ég var orðinn mjög lágur á súrefni og allir aðrir líka. En ég fór mjög hratt niður. Maður varaði sig mjög mikið á niðurleiðinni, eða eins og maður gat. En aðalatriðið var að missa aldrei einbeitingu og fylgjast með fjallinu. Það var það mikilvægasta og algjört lykilatriði í þessu.“

Hlakkar til að verja tíma með fjölskyldunni

Ferðalag Johns frá Isamabad hófst um klukkan 21 í gærkvöldi og var hann því þreyttur, en þó brattur þegar heim var komið.

Ferðin hefur þó tekið lengri tíma, en John Snorri lagði af stað frá grunnbúðum K2 í Pakistan fyrir rúmri viku síðan. Þurfti hann að ganga í næsta þorp sem tók nokkra daga og kom­ast þaðan yfir til Gardu þar sem flogið var frá herflug­velli til höfuðborg­ar­inn­ar Islama­bad. Þá tók við flug heim til Íslands.

Hann segist þó afar ánægður með að vera kominn heim og hlakkar til að verja tíma með fjölskyldu sinni á næstunni, en hann er giftur Líneyju Móey og á með henni fimm börn. Fjölskyldan fer þó stækkandi þar sem sjötta barnið er á leiðinni.

Eiginkonan ákvað að sýna algjöran skilning 

„Það er æðislegt að fá hann heim. Við erum alveg búin að bíða eftir að hann komi aftur,“ sagði Líney Móey í samtali við mbl.is í Leifsstöð.

Var ekki erfitt að bíða heima og vita af honum í þessum aðstæðum? „Það var erfiðast þegar hann var að fara upp á fjöllin. En ég var búin að setja mig inn í þetta svo ég vissi alveg hvernig þetta yrði og ákvað að sýna þessu bara algjöran skilning.“

Kári G. Schram kvikmyndagerðarmaður fylgdi John Snorra.
Kári G. Schram kvikmyndagerðarmaður fylgdi John Snorra. mbl.is/Ófeigur

Mögnuð, stórkostleg og hættuleg 

Kári G. Schram kvikmyndagerðarmaður hefur fylgt John Snorra en til stendur að gera heimildamynd um leiðangurinn. Aðspurður um reynsluna segir Kári hana hafa verið magnaða. „Hún var mögnuð. Hún var stórkostleg og hún var stórhættuleg. Ég held hún hafi skilað mörgu í hús sem hefði ekki verið hægt að upplifa annars staðar.“

Ganga John Snorra var hluti af áheitasöfnun fyrir Líf, styrktarfélag kvennadeildar Landspítalans.

Endalaust eftir 

En hvað tekur við næst hjá John Snorra? „Ætli það sé ekki að uppfylla loforðin sem maður er búinn að gefa?“ segir hann og hlær. „Einhvern tímann langar mig svo að fara á Kangchenjunga sem er þriðja hæsta fjall í heimi en það er kannski eftir tvö ár.“

Svo það er nóg eftir? „Já, þetta er endalaust. Og það sem mér fannst svo gaman í Nepal var að ég náði samleið með fjöllunum og umhverfinu þar og hér heima. Ég hef gengið í Landmannalaugum og Þórsmörk og þegar ég gekk þarna meðfram jökulánni og tjaldaði svo í skóglendi og það var skemmtileg upplifun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert