Húllar og hleypur á sama tíma

Unnur María Bergsveinsdóttir ætlar að húllahlaupa í Reykjavíkurmaraþoni og safna …
Unnur María Bergsveinsdóttir ætlar að húllahlaupa í Reykjavíkurmaraþoni og safna áheitum til styrktar Villiköttum. Hún segir húllið vera skemmtilega hreyfingu sem gleður bæði þátttakendur og áhorfendur. Ljósmynd/Magnús Þór Einarsson

Unnur María Bergsveinsdóttir, betur þekkt sem Húlladúllan, tekur þátt í skemmtiskokki Reykjavíkurmaraþons. Hún ætlar að húllahlaupa leiðina um miðbæ Reykjavíkur og safnar áheitum til styrktar Villiköttum. 

Unnur María segist hafa duflað í alls kyns sirkus list en síðustu þrjú árin hefur hún einbeitt sér að húllahringnum. Hefur hún meðal annars unnið með Sirkus Íslands en starfar nú sjálfstætt. 

Hún vinnur við að kynna húllalistina í svokölluðu „húllafjöri“ nokkrum sinnum í mánuði ásamt því að kenna bæði húlla og sirkus listir. Kennir hún bæði fullorðnum og börnum húlla sem dans en einnig sem líkamsrækt. „Þetta getur verið alveg hörku púl ef þú setur það þannig upp, en skemmtilegt,“ segir hún. 

Unnur María vinnur meðal annars að því að kynna húlla …
Unnur María vinnur meðal annars að því að kynna húlla listina fyrir fólki ásamt því að kenna bæði fullornum og börnum að húlla. Ljósmynd/Logi Ragnarsson

Húllar á maganum og hleypur áfram á sama tíma 

Unnur María segir allt mögulegt vera til í húllaheiminum. „Eitt af því sem er til er heimsmet í hálfmaraþoni og maraþoni sem eru bara nokkuð góð,“ segir hún og bætir við að hún hafi hlaupið í maraþoninu fyrir einhverjum árum síðan og datt í hug að blanda þessu tvennu saman. 

 „Það er athyglisvert við húllahlaupið að maður þarf að passa sig að fara ekki of geyst, en þú þarft að samhæfa taktinn í því að húlla á maganum og að hlaupa áfram,“ segir Unnur María og bætir við að það krefjist mikillar einbeitingar.

Þá segir hún það vera „eiginlega ómögulegt að vera í vondu skapi að húlla“ en húllið gleður bæði þátttakendur og áhorfendur.  „Kannski af því við höfum mörg húllað þegar við vorum krakkar og það er einhver tenging þarna á milli.“

Unnur María segir það vera ómögulegt að vera í vondu …
Unnur María segir það vera ómögulegt að vera í vondu skapi þegar maður húllar. Ljósmynd/Logi Ragnarsson

Sirkuskötturinn Herra Mjá

Unnur María safnar áheitum til styrktar Villiköttum en sjálf á hún villikött sem hún bjargaði í Mexíkó. Ferðaðist hún þar um sem götulistamaður og lærði sirkuslistir. Einn dag fann hún kött í útjaðri bæjar sem var greinilegt að átti ekki í nein hús að venda, var bæði skítugur og með rifna vör.

Ákvað hún þá að taka hann með sér með því markmiði að finna honum gott heimili. „En svo þegar honum bauðst gott heimili þá var ég ekki tilbúin að láta hann frá mér, hann var orðinn kötturinn minn,“ segir hún.

Í dag er Herra Mjá, eins og hann heitir, orðinn virðulegur vesturbæjarköttur að sögn Unnar Maríu en hann kann að stökkva í gegnum hringi, bæði húllahringi og minni hringi, og má því segja að hann sé sannkallaður sirkusköttur.

Sirkuskötturinn Herra Mjá kann að stökkva í gegnum hringi. Hér …
Sirkuskötturinn Herra Mjá kann að stökkva í gegnum hringi. Hér er hann í fullum skrúða á ferðalagi með Unni Maríu um Mexíkó. Ljósmynd/Unnur María Bergsveinsdóttir

Unnur María vill vekja athygli á  starfssemi Villikatta með hlaupinu og safna í sjóð þeirra fyrir húsnæði. „Fólk hugsar ekki að það séu til villikettir á Íslandi, ekki eins og í erlendum borgum þar sem maður sér þá út um allt,“ segir hún en bætir við að þeir eru þó til og er líf þeirra oftast ekkert sérstaklega gott.

Hægt er að heita á Unni Maríu á Hlaupastyrkur.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert