Í þriðja sinn fyrir mömmu

Mæðginin Óskar Örn Arnórsson og Gunnhildur Óskarsdóttir.
Mæðginin Óskar Örn Arnórsson og Gunnhildur Óskarsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Jú, það er alltaf einhver svona notaleg tilfinning sem hríslast um mig þegar ég kem í mark, að vera að hlaupa fyrir mömmu,“ segir Óskar Örn Arnórsson sem hleypur heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka, fyrir móður sína og um leið Göngum saman, þriðja árið í röð.

Móðir Óskars, Gunnhildur Óskarsdóttir, hefur glímt við brjóstakrabbamein undanfarin ár en hún greindist fyrst fyrir 19 árum, þegar Óskar var 16 ára gamall, en Gunnhildur stofnaði Göngum saman, félag sem styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini.

Óskar er arkitekt og doktorsnemi við Columbia-háskóla í New York.

„Ég hef verið búsettur ytra í 11 ár en kem heim til Íslands á sumrin og er að æfa mig fyrir maraþonið um leið og ég ferðast. Ég hleyp því mikið á sveitavegum. Það er mun betra að hlaupa á Íslandi þar sem loftslagið er svo heitt úti að ég þarf að fara út sex á morgnana.“ Óskar er einnig að búa sig undir New York-maraþonið en sem doktorsnemi nýtir hann hlaupatímann og hlustar á hljóðbækur.

Óskar segir að hingað til hafi verið skemmtilegast að hlaupa frá Dalvík og inn Svarfaðardalinn, sem er um 25 km leið. „Þar sem ég er úti og get ekki tekið mikinn þátt í starfi Göngum saman er þetta mín leið til að leggja mitt af mörkum. Þetta er mikilvægur málstaður; það yrðu engar framfarir í læknavísindum ef ekki væru grunnrannsóknir.“ Óskar hefur safnað áheitum fyrir síðustu tvö maraþonin og samanlagt hefur hann náð að safna um 670 þús. kr. fyrir félagið. Í ár er stefnan tekin á að ná milljóninni.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert