Eiturplöntur víða í íslenskum görðum

Venusarvagn er algeng planta í íslenskum görðum.
Venusarvagn er algeng planta í íslenskum görðum. Ljósmynd/Grasagarður Reykjavíkur

Venusarvagn, eiturplantan sem notuð var til að myrða Kládíus Rómarkeisara, er algeng íslensk garðplanta. Þetta er meðal þess fróðleiks sem Björk Þorleifsdóttir, verkefnastjóri fræðslu og miðlunar hjá Grasagarðinum í Laugardal, ætlar að miðla til gesta annað kvöld.

Fróðleiksgangan hefur hlotið heitið Illt gresi og segir Björk vera meira um eiturplöntur í íslenskum görðum en margan grunar. Bjarnarklóin hefur mikið verið í umræðunni í sumar vegna þeirra áhrifa sem hún hefur og er hún fjarri því að vera eina plantan sem býr yfir eituráhrifum. „Venusarvagninn er til að mynda mjög algeng garðaplanta og þá er fingurbjargarblómið, sem er alveg ofboðslega fallegt tvíært sumarblóm, einnig mjög eitrað,“ segir hún.

Björk sem er sagnfræðingur að mennt, en er einnig að stúdera náttúrufræði, segir að það hafi legið beint við fyrir sig að bjóða upp á fróðleik um eiturplöntur garðsins. „Eitur hefur verið notað svo mikið í gegnum mannkynsöguna, þannig að það var eiginlega bein tenging þarna á milli.“ 

Hún segir þó merkilegt að margar eiturplantnanna séu líka lækningajurtir. Björk nefnir í þessu samhengi lækningajurtagarð Grasagarðsins. „Það er mjög áhugavert að skoða að mikið af þessum plöntum sem eru eitraðar í sínu náttúrulega umhverfi, en eru síðan notaðar til lækninga“. Fingurbjargarblómið, sem notað er í hjartalyf, er dæmi um eina slíka plöntu. „Þannig að maður þarf að vita hvað maður er að gera,“ segir Björk.

Gangan hefst við aðalinngang Grasagarðsins klukkan átta annað kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert