Erfitt að finna leikskólakennara til starfa

Leikskólar standa nú frammi fyrir þeim vanda að ekki fæst …
Leikskólar standa nú frammi fyrir þeim vanda að ekki fæst fólk til starfa fyrir haustið. Félag leikskólakennara segir nauðsynlegt að bæta starfsumhverfi, laun og draga úr álagi starfsstéttarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Félag leikskólakennara samþykkti í dag ályktun um þann vanda að ekki fæst fólk til starfa á leikskólum meðal annars vegna þess að ekki er nægur fjöldi menntaðra leikskólakennara. Segja þau nauðsynlegt að samfélagið hlúi betur að leikskólakennurum.  

Í tilkynningu Félags leikskólakennara segir að rót vandans sé að það vantar um 1.300 leikskólakennara til þess að uppfylla lög 87/2008 um menntun og ráðningu kennara þar sem segir að 2/3 hlutar þeirra sem sinna uppeldi og menntun í leikskólum eigi að hafa leyfisbréf til kennslu á leikskólastigi.

Bæta starfsumhverfi, laun og minnka álag 

Félagið segir að nauðsynlegt sé að bregðast við þeim vanda sem er skortur á leikskólakennurum með því að  vinna að því að bæta starfsumhverfi þeirra, auka nýliðun í stéttinni og draga úr álagi.

„Það sem skiptir mestu máli er að fækka börnum í hverju rými og á hvern kennara, auka afleysingu, fjölga undirbúningstímum umtalsvert og færa starfsumhverfið nær því sem þekkist á öðrum skólastigum hvað varðar vinnu- og starfstíma.“

Einnig kemur fram að laun leikskólakennara þurfi og eigi að vera hærri en byrjunarlaun nýútskrifaðs leikskólakennara eru nú 465.155 krónur.

Félag leikskólakennara talar til sveitarfélagana um að finna lausn á þessum vanda sem kemur upp nánast á hverju hausti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert