Gísli Hjálmtýsson forseti tölvunarfræðideildar HR

Dr. Gísli Hjálmtýsson, forseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík.
Dr. Gísli Hjálmtýsson, forseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Ljósmynd/Háskólinn í Reykjavík

Dr. Gísli Hjálmtýsson hefur verið ráðinn forseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Tekur hann við af dr. Yngva Björnssyni, sem hefur verið forseti deildarinnar frá 2014.

Í fréttatilkynningu frá HR segir að Gísli hafi yfir þrjátíu ára reynslu sem frumkvöðull og stjórnandi á sviði upplýsingatækni og nýsköpunar á fjölbreyttum sviðum íslensks og alþjóðlegs viðskiptalífs. Gísli hafi verið framkvæmdastjóri og einn eigenda Thule Investments frá 2004 og hafi leitt fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum. Þá hafi hann setið í stjórnum fjölda fyrirtækja, á Íslandi, í Evrópu og Bandaríkjunum.

Gísli lauk doktorsprófi í tölvunarfræði frá University of California, Santa Barbara, 1995 og BS-gráðu í stærðfræði og tölvunarfræði frá University of Rochester 1992. Hann starfaði að loknu doktorsprófi hjá AT&T Bell Laboratories og á árabilinu 2001-2007 var hann prófessor í tölvunarfræði og forseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert