Hittast á afmæli Claptons

Hljómsveitin Key to the Highway situr að snæðingi eftir æfingu …
Hljómsveitin Key to the Highway situr að snæðingi eftir æfingu á sunnudagskvöld. Hljómsveitin kemur nú fram á tónleikum í annað sinn á fimmtudagskvöld. Frá vinstri: Reynir, Jakob, leynigestur tónleikanna sem mikil leynd hvílir yfir, Heiðmar, Ásmundur, Gunnar, Heimir og Ólafur. Ljósmynd/Haukur Júlíusson

Eric Clapton félag Borgarfjarðar var óformlega stofnað á fimmtugsafmæli Claptons, 30. mars 1995. Hljómsveit á vegum félagsins heldur tónleika á fimmtudagskvöld. Það voru þau Jóhann Pjetur Jónsson og Harpa Jóhanna Reynisdóttir á Hæl í Flókadal sem buðu í afmæliskaffið sem markar upphaf félagsins. Þá taldi hópurinn um níu félaga og hafa fleiri bæst við síðan þá.

„Flest okkar höfðu léð Clapton eyra alveg frá Yardbirds-árunum og fylgst með ferli hans í gegnum hinar ýmsu hljómsveitir,“ segir Haukur Júlíusson, jarðýtustjóri og einn af stofnfélögum.

Haukur segir félagið áhugamannasamtök fremur en formlegt félag og ekki er haldið félagatal. Hafi fólk áhuga á því að ganga í hópinn er það velkomið.

„Þetta eru mest karlmenn en þó er ein virðuleg húsfreyja í Reykjavík meðal félaga,“ segir hann. Félagið kemur jafnan saman á afmæli goðsins, þá yfir afmælistertu, tónlist og góðu spjalli. Stöku sinnum hefur félagið staðið fyrir viðburðum og ber þar hæst að nefna stofnun hljómsveitarinnar Key to the Highway. Nafn hljómsveitarinnar er dregið af samnefndu lagi sem Clapton sjálfur hefur flutt í nokkrum mismunandi útgáfum.

Stofnuð á 70 ára afmælinu

Hljómsveitin var stofnuð í tengslum við 70 ára afmæli Claptons og segir Haukur flesta hljómsveitarmenn þá hafa verið um tvítugt en einnig gengu tveir gamalkunnir tónlistarmenn til liðs við sveitina. Það eru þeir Ólafur Garðarsson og Gunnar Ringsted.

„Ólafur var í fararbroddi þessarar tónlistarstefnu í gamla daga með hljómsveitinni Óðmönnum og spilaði einnig með hljómsveitunum Trúbroti og Náttúru. Gunnar var í þeirri fornfrægu hljómsveit Bravóbítlunum frá Akureyri og spilaði síðar með Ingimar Eydal um skeið,“ segir Haukur.

Hljómsveitin hélt tónleika vorið 2015 og segir Haukur þá hafa tekist með ágætum. „Af ýmsum ástæðum tókst ekki að endurtaka leikinn í fyrra, menn voru út og suður. En nú tókst að safna mönnum saman á einn punkt 17. ágúst.“ Félagið hefur ekki enn fengið Clapton sjálfan á sinn fund en hefur sent honum bréf og hver veit nema goðsögnin svari kallinu.

Bara gegnheilt rokk

Hljómsveitin Key to the Highway, sem stofnuð var í tengslum við Eric Clapton félag Borgarfjarðar, heldur tónleika fimmtudagskvöldið 17. ágúst kl. 20.30 í félagsheimilinu Brún í Bæjarsveit. Hljómsveitin kemur nú saman opinberlega í annað sinn síðan hún var stofnuð. Leikin verða lög Claptons ásamt lögum eftir aðra listamenn sem hann hefur unnið með. Kjörorð tónleikanna eru: „Engar vindvélar, engar dansmeyjar og engin ljósasýning, bara gegnheilt rokk.“ Leynigestur stígur á svið með hljómsveitinni um kvöldið en mikil leynd hvílir yfir honum.Tónleikahaldarar búast við svipuðum fjölda og mætti á síðustu tónleika, eða um 90 manns. Eric Clapton félag Borgarfjarðar er sérstakur stuðningsaðili tónleikanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert