Hringdi heim til þess að fá leyfi

John Snorri og Lína Móey eiginkona hans í viðtali í …
John Snorri og Lína Móey eiginkona hans í viðtali í Magasíninu á K100. Þar töluðu þau meðal annars um samskipti sín á meðan að á ferðalaginu stóð og heimkomuna. K100

John Snorri Sigurjónsson og Lína Móey eiginkona hans voru gestir í Magasíninu á K100 í dag þar sem þau töluðu meðal annars um samskipti sín á meðan á ævintýrum John Snorra stóð og heimkomuna.

„Þetta tímabil var mjög skrautlegt, myndi ég segja, en ég er samt ótrúlega stolt af honum og rosalega ánægð að fá hann heim,“ sagði Lína aðspurð um hennar upplifun á ævintýrum eiginmannsins. „Það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessu. Ég tók bara ákvörðun um að ég ætlaði að standa með honum í þessu.“

Hún segir það hafa hjálpað henni mikið að taka þessa ákvörðun. „Ég passaði mig að sýna honum algjöran stuðning og hvatti hann bara áfram.“ Auðvitað hafi verið erfitt þegar hann lagði í ferðina upp á fjöllin en Lína segir að versti tímapunktur ferðalagsins hafi verið þegar hann var á leiðinni niður af K2.

John Snorri mættur aftur í grunnbúðir.
John Snorri mættur aftur í grunnbúðir. Ljósmynd/Kári G. Schram

Hringdi heim til þess að fá leyfi 

Eftir að hafa klifið K2 ákvað John Snorri að fara einnig upp á fjallið Broad Peak en hann segist hafa þurft að hringja heim og fá leyfi frá Línu áður en hann gerði það. Í fyrstu hafi hún bara sagt nei og þurfti hann nánast að grátbiðja hana til þess að hún skipti um skoðun.

Aðspurð hvaðan hún hafi þennan styrk sagði hún: „Ég hef rosalega mikla trú á honum og var eiginlega búin að sjá fyrir mér að ég myndi taka á móti honum aftur.“ Hann hafi þurft á því að halda að hún væri til staðar fyrir hann en ekki að biðja hann um að koma heim. „ Ég vildi frekar að hann myndi einbeita sér að því sem hann var að gera.“

Kom aldrei til greina að snúa við 

John Snorri sagði að það hafi gerst hratt að hann ákvað að fara í þetta ferðalag núna en upprunalega ætlaði hann árið 2020. Eftir að faðir hans lést í upphafi ársins ákvað hann að drífa sig af stað. „Mér fannst bara kallið vera núna, rétti tíminn vera núna.“ Svo þau ákváðu í sameiningu að hann myndi keyra á þetta.

Jafnvel á erfiðustu köflunum kom aldrei til greina fyrir hann að snúa við eða gefast upp en hann segir að það hafi komið fyrir að hann hugsaði til þess, einkum þegar allir aðrir fóru niður af fjallinu vegna slæmra veðuraðstæðna.

Lína vildi frekar kalla þetta ákveðna staðfestu hjá eiginmanninum en þrjósku og talaði um hæfileika hans til þess að loka á allt til þess að ná markmiðinu.

Fagnaðarfundir við heimkomuna
Fagnaðarfundir við heimkomuna mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Yndislegt að fá alla þessa athygli 

Fjölskylda John Snorra tók á móti honum á Keflavíkurflugvelli í gær. Hann sagði það hafa komið sér á óvart hversu mikla athygli ferðin hans hafi vakið hér á landi. Lína sagði að þau hafi ekki áttað sig á því fyrr en í morgun þegar þau hittu þann fyrsta sem bauð hann velkominn heim.

„Svo er þetta eiginlega búið að vera þannig í gegnum daginn,“ sagði hún og finnst henni yndislegt að sjá hversu mikinn áhuga fólk sýnir verkefninu. John Snorri vonar að ferðalagið hafi verið hvatning fyrir alla. „Það er rosa gott, heilsusamlegt og gefandi að ganga á fjöll,“ sagði hann og bætti við að það skilji mikið eftir sig.

Hægt er að horfa á viðtalið í heild að neðan.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert