Kalla eftir gegnsæi um rekstur Póstsins

FA hefur bent á að frá því í júlí 2012 …
FA hefur bent á að frá því í júlí 2012 hafa verðskrár í einkaréttarþjónustu hækkað um 62,5% en á sama tíma hefur gjaldskrá fyrir dreifingu fjölpósts, þar sem Íslandspóstur er í samkeppni, „ekki hækkað um krónu.“ mbl.is/Ómar Óskarsson

Meiri upplýsingar um rekstur og stöðu Íslandspósts þurfa að liggja fyrir áður en nýtt frumvarp til laga um póstþjónustu verður tekið til umræðu. Þá er með ólíkindum að stjórnendur Íslandspósts hafi í fjölda ára getað komið sér undan því að svara spurningum um fjármögnun fjárfestinga í samkeppnisþjónustu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn sem Félag atvinnurekenda hefur sent samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu um fyrrnefnt frumvarp en í umsögninni ítrekar félagið athugasemdir sýnar við eldri útgáfu frumvarpsins.

Frumvarpið kveður m.a. á um afnám svokallaðs einkaréttar í póstþjónustu.

Félag atvinnurekenda segir m.a. að spurningum sé enn ósvarað um hvort Íslandspóstur hafi með ólögmætum hætti brotið gegn ákvæðum laga um bókhaldslegan aðskilnað einkaréttar og samkeppnisrekstrar með því að láta tekjur af einkaréttarrekstrinum niðurgreiða samkeppnisreksturinn.

Segir m.a. í fyrri umsögn FA að Íslandspóstur hafi á undanförnum árum varið háum fjárhæðum í fjárfestingar í skyldum og óskyldum rekstri í samkeppni við einkaaðila en því sé ósvarað hvernig þær fjárfestingar voru fjármagnaðar.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, fagnar því að til standi …
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, fagnar því að til standi að einfalda og minnka eftirlit í póstgeiranum. Í umsögn FA eru hins vegar gerðar fjölmargar athugasemdir við þau frumvarpsdrög sem nú liggja fyrir. Ljósmynd/Gudmundur Kr.

Gagnrýna undanbrögð stjórnenda og getuleysi hins opinbera

Samkvæmt umsögn FA er hér um lykilatriði að ræða en félagið gagnrýnir einnig að í greinargerðinni með þeim frumvarpsdrögum sem nú liggja fyrir „sé engin tilraun gerð til að leggja mat á áhrif frumvarpsins á samkeppni á þeim fjölmörgu mörkuðum sem Íslandspóstur starfar á.“

Fyrirtækið hafi haslað sér völl m.a. í flutningsmiðlun, sendibílaþjónustu, prentsmiðjurekstri og gagnageymslu, í samkeppni við einkaaðila.

Þá er í umsögninni fjallað um rannsókn Samkeppniseftirlitsins á meintum samkeppnisbrotum Íslandspósts og umdeilda sátt sem aðilar gerðu um bætta samkeppnishætti.

„Sáttin þýðir ekki mikið annað en að Íslandspóstur heitir að fara að lögum í framtíðinni og tekin hefur verið upp aðgangsstýring í húsakynnum fyrirtækisins til að upplýsingar berist ekki milli deilda. Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins svaraði ekki þeirri spurningu hvaðan fjármagnið kom sem fjárfest hefur verið í samkeppnisþjónustu Íslandspósts, bæði innan og utan alþjónustu.“

Þá segir með ólíkindum að stjórnendur Íslandspósts hafi í fjölda ára getað komið sér undan því að svara umræddri spurningu og „getuleysi ráðuneytisins og annarra opinberra stofnana við að leiða fram þessi gögn og upplýsingar“ gagnrýnt.

Í greinargerð með frumvarpsdrögunum kemur fram að í mörgum nágrannalöndum …
Í greinargerð með frumvarpsdrögunum kemur fram að í mörgum nágrannalöndum séu fyrrverandi einkaleyfishafar enn í markaðsráðandi stöðu. mbl.is/Rósa Braga

Einkaaðilum afhent verðmæti á silfurfati?

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, skrifar undir umsögnina þar sem segir m.a. að markmið frumvarpsins um að „stuðla að virkri samkeppni“ náist síður ef núverandi einkaréttarhafi njóti ósannagjarns og ólögmæts forskots á keppinauta sína.

„Skiptir þá ekki öllu hvort fyrirtækið er áfram í eigu ríkisins eða verður einkavætt, nema hvað í síðara tilvikinu væru sterkar líkur á að verið væri að afhenda einkaaðilum umtalsverð verðmæti, sem stjórnendur Íslandspósts hefðu með ólögmætum hætti fært samkeppnisrekstri fyrirtækisins,“ segir í umsögninni.

Vísbendingar séu uppi um að alþjónustan sem Íslandspóstur sinnir taki á sig hlutfallslega mun stærri hlut sameiginlegs kostnaðar en samkeppnisrekstur utan alþjónustu.

„Í reikningum Íslandspósts kemur fram að á árinu 2013 hækkaði rekstrarkostnaður innan alþjónustu um rúmlega 700 mkr. á sama tíma og tekjur hækkuðu um rúmlega 100 mkr. sem leiddi til mjög versnandi afkomu. Rekstrarkostnaður utan alþjónustu lækkaði hins vegar um rúmlega 370 mkr. en tekjur stóðu í stað. Engin tilraun hefur verið gerð til að skýra þessar breytingar á afkomu, sem þó er full ástæða til.“

FA segir forsendur í greinargerð með frumvarpinu „vægast sagt umdeilanlegar“ og „skautað býsna létt“ yfir ýmsar staðreyndir. Fullyrðing frumvarpshöfunda um að rekstur Íslandspósts hafi verið „í járnum“ sé vafasöm og m.a. bent á að á sama tíma og verðskrár fyrirtækisins innan einkaréttar hafi hækkað um tugi prósenta hafi verðskrár fyrir samkeppnisþjónustu hækkað lítið sem ekkert.

„Hagræðingaraðgerðir Íslandspósts hafa fyrst og fremst komið niður í einkaréttarþjónustunni, þ.e. dreifingu bréfapósts út um allt land. Hins vegar hefur verið ráðist í gríðarlegar fjárfestingar í samkeppnisþjónustunni til að gera ríkisfyrirtækið betur í stakk búið að keppa við einkaaðila. Einkavæddur Íslandspóstur myndi jafnframt njóta þeirrar meðgjafar,“ segir í umsögn FA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert