Skildi skyndilega ekki ensku

mbl.is/Hjörtur

Franskur ferðamaður var staðinn að verki seint í gærkvöldi þar sem hann var við spúnveiðar í laxastiganum við fossinn Glanna í Norðurá. Haft er eftir Magnúsi Fjeldsted veiðiverði á fréttavefnum Skessuhorn að honum hafi verið gert viðvart um málið á tíunda tímanum í gærkvöld en ferðamaðurinn var á ferð við annan mann.

Magnús fór á staðinn og gerði ennfremur lögreglunni viðvart sem mætti á staðinn til þess að taka skýrslu af ferðamanninum. Magnús segir að maðurinn hafi verið einn á ferð þegar hann hafi komið á vettvang og greinilega verið meðvitaður um að hann væri að brjóta lög. Þegar honum hafi verið tilkynnt að um lögreglumál væri að ræða hafi hann skyndilega ekki skilið stakt orð í ensku.

Lögreglan ræddi við ferðamanninn með aðstoð þýðingarforritsins Google Translate að sögn Magnúsar. Hann segir að veiðifélagið ætti að öllum líkindum eftir að leggja fram kæru og að maðurinn megi búast við hárri sekt áður en hann haldi af landi brott.

Fossinn Glanni í Norðurá.
Fossinn Glanni í Norðurá. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert