Svona ráðstafa ráðherrar skúffufé sínu

Ríkisstjórn Íslands.
Ríkisstjórn Íslands. ljósmynd/Stjórnarráðið

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa samtals úthlutað tæpum 7,5 milljónum króna af ráðstöfunarfé sínu til ýmissa verkefna á árinu. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur úthlutað mestu eða 2,2 milljónum króna. Þrír ráðherrar hafa engu úthlutað.

Á fjárlögum ársins í ár eru samtals rúmar 40 milljónir króna til ráðstöfunar fyrir ráðherra, en engar samræmdar reglur eru um úthlutanir á fénu.

Hér er hægt að sjá úttekt á því hvaða verkefni …
Hér er hægt að sjá úttekt á því hvaða verkefni ráðherrar hafa styrkt á árinu. Smelltu á myndina til að sjá hana stóra.

mbl.is óskaði eftir sundurliðuðum upplýsingum frá öllum ráðuneytum um úthlutanir úr ráðstöfunarfé ráðherra, sem jafnan er nefnt skúffufé, það sem af er ári. Ríkisstjórnin tók til starfa þann 11. janúar sl. Á þeim sjö mánuðum sem ríkisstjórnin hefur verið við störf hafa ráðherrar úthlutað mismiklu.

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hafa ekki úthlutað neinu úr ráðstöfunarfé sínu.

Flestir styrktu Hinsegin daga

Það verkefni sem hefur fengið stuðning flestra ráðherra á árinu er hátíðin Hinsegin dagar í Reykjavík, sem fram fór um síðustu helgi. Fimm af ellefu ráðherrum ríkisstjórnarinnar styrktu hátíðina.

Bjarni Bene­dikts­son for­sæt­is­ráðherra veitti sinn hæsta styrk til þessa á kjörtímabilinu til Hinsegin daga, eða 200 þúsund krónur. Bene­dikt Jó­hann­es­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, veitti einnig sinn hæsta styrk til þessa til hátíðarinnar, eða 300 þúsund krónur. 

Hæsta styrkinn til hátíðarinnar veitti hins vegar Þorsteinn Víg­lunds­son, fé­lags- og jafn­rétt­is­málaráðherra, eða 350 þúsund krónur. Er það jafnframt hans eina úthlutun úr ráðstöfunarfénu. Þá styrkti Ótt­arr Proppé heil­brigðisráðherra hátíðina um 200 þúsund krónur, en Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, og Þór­dís Kol­brún Gylfa­dótt­ir, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, styrktu hátíðina báðar um 150 þúsund krónur hvor.

Flestir ráðherrar styrktu Hinsegin daga.
Flestir ráðherrar styrktu Hinsegin daga. mbl.is/Freyja Gylfa

Fjórir ráðherrar hafa styrkt Landsbyggðarvini; Þórdís Kolbrún og Þorgerður Katrín fyrir 100 þúsund krónur hvor vegna verkefnisins „Framtíðin er núna“, Bjarni Benediktsson um 150 þúsund vegna sama verkefnis, og Benedikt um 150 þúsund vegna þátttöku í samnorræna verkefninu „Youth ABC“.

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur úthlutað einu sinni úr sínu ráðstöfunarfé það sem af er ári, en það var 200 þúsund króna styrkur til Sveins Elíasar Jónssonar vegna minnisvarðar um Látra-Björgu.

Hafa úr mismiklu að moða

Ráðherrarnir hafa úr mismiklu að moða þegar kemur að skúffufénu. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, getur veitt mest í styrki eða 6 milljónir króna. 

Þórdís Kolbrún og Þorgerður Katrín deila því sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur til ráðstöfunar; samtals 8,8 milljónum eða 4,4 milljónir hvor. Þá hefur Guðlaugur Þór 3,5 milljónir til úthlutunar hjá utanríkisráðuneytinu.

Sigríður Andersen og Jón Gunnarsson deila 7,5 milljónum sem innanríkisráðuneytið fær og hafa því 3,75 milljónir til úthlutunar hvort.

Óttarr Proppé og Þorsteinn Víglundsson deila ráðstöfunarfé velferðarráðuneytisins upp á 6,8 milljónir króna og hafa því 3,4 milljónir til úthlutunar hvor.

Umhverfisráðuneyti og fjármálaráðuneyti hafa hvort um sig 2,8 milljónir í ráðstöfunarfé, en Bjarni Ben hefur 2,5 milljónir til ráðstöfunar úr skúffufé forsætisráðuneytisins.

Styrkja verkefni innan síns málefnasviðs

Sumir ráðherrar nýta fjármagnið sem þeir fá í ráðstöfunarfé að mestu leyti í verkefni eða málefni innan síns málefnasviðs. Má til að mynda nefna að Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur nánast eingöngu úthlutað fé í verkefni sem eru innan sviðs ráðuneytisins. Þannig hefur hún veitt styrki til Landbúnaðarháskóla Íslands, Skógræktarinnar og Ólafs Sveinssonar vegna 10 ára afmælis Kárahnjúkavirkjunar. Hún hefur þó einnig veitt styrk til Kvikmyndahátíðar í Reykjavík.

Flestir aðrir ráðherrar sem hafa úthlutað úr sínu ráðstöfunarfé hafa einnig verið duglegir að styrkja verkefni á sínu málefnasviði, en Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hefur t.a.m. styrkt ýmis heilbrigðistengd verkefni, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, styrkt verkefni tengd sínu málefnasviði og það hefur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, einnig gert. 

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, er með víðtækara málefnasvið en önnur ráðuneyti og hafa styrkir hans verið fjölbreyttir. Hefur hann styrkt Einstök börn, Orator, félag laganema, íþróttasamband lögreglumanna, Hjartaheill og Sjálfsbjörgu auk fyrrgreindra styrkja.

Á myndinni að ofan er hægt að sjá úttekt á því hvaða verkefni ráðherrar hafa styrkt á árinu.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er með víðtækara málefnasvið en önnur ráðuneyti …
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er með víðtækara málefnasvið en önnur ráðuneyti og hafa styrkir hans verið fjölbreyttir. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert