„Uppákoman í nefndinni í gær virkar furðuleg“

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við stjórnmálamenn berum sameiginlega ábyrgð á því andvaraleysi að hafa ekki aflagt eða a.m.k. breytt löngu úreltum reglum um veitingu uppreist æru. Þess vegna eigum við saman að hysja upp um okkur og láta hendur standa fram úr ermum við að afleggja þennan nítjándu-aldar sið.“

Þetta skrifar Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra í færslu á Facebook-síðu sinni í framhaldi af fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem fram fór í gær þar sem fjallað var um uppreist æru. Full­trú­ar meiri­hlut­ans gengu út af fund­in­um áður en gögn sem sýndu meðmæla­bréf vegna upp­reistr­ar æru Roberts Dow­ney voru lögð fram.

„Því miður á Björt framtíð ekki fulltrúa í stjórnskipunar og eftirlitsnefnd alþingis [sic]. Uppákoman í nefndinni í gær virkar furðuleg. Hún þarfnast skýringa og ég skil ekki þau rök sem komið hafa fram. Það flækir og gerir erfitt fyrir því að ná saman um góð og bætt vinnubrögð. Ef ekki er þörf á að kynna sér mál í nefnd má óska eftir frávísun eða frestun,“ skrifar Óttarr.

Stjórnmálamenn þurfi að vanda til verka í umfjöllun um viðkvæm mál. „Mannréttindi eru ekki flokkspólitísk í eðli sínu heldur verkefni allra sem starfa í stjórnmálum. Það er margt ófullkomið og sumt getur verið erfitt í framkvæmd en það er engin afsökun fyrir því að ganga ekki til verks og ganga til góðs,“ skrifar Óttarr.

Þá segir hann þolendur alltaf eiga að njóta vafans en kerfið og lagaumhverfið eigi að þjóna þeim tilgangi að styðja og standa vörð um þá sem standi höllum fæti.  

„Þetta á að vera leiðarljós. Sögulega hefur því oft verið öfugt farið og þess sér enn þá merki hér og hvar í kerfunum okkar. Það þarf að skoða það sem úrskeiðis fer, læra af því, og umfram allt að ganga í að færa til betra horfs. Ég lít á þetta sem lykilverkefni í stjórnmálum og ábyrgðin er okkar allra,“ skrifar Óttarr en færsluna má sjá í heild sinni hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert