„Komið að skuldadögum“ eftir langvarandi vanrækslu viðhalds

Viðhaldi í fangelsinu á Litla-Hrauni hefur verið ábótavant.
Viðhaldi í fangelsinu á Litla-Hrauni hefur verið ábótavant. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það sem við erum að gera núna er að bregðast við langvarandi vanrækslu á viðhaldi á húsnæði,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri í samtali við mbl.is. Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að loka hafi þurft einu fangahúsi á Litla-Hrauni í sumar sem hefur það í för með sér að fangarýmum fækkar um 22 á meðan endurbætur eru gerðar á húsnæðinu.

Heilbrigðiseftirlitið hafði gert alvarlegar athugasemdir við aðbúnað í umræddu fangahúsi að sögn Páls en ráðgert er að endurbótum á húsnæðinu ljúki í haust. Þá gerir mannekla það af verkum að ekki er hægt að fullnýta rými í nýja fangelsinu á Hólmsheiði og er langur biðlisti eftir afplánun í fangelsum landsins.

„Staðan var einfaldlega þannig í þessum niðurskurðarfasa sem við erum búin að vera í, eins og aðrar ríkisstofnanir frá því að kreppan skall á, að þá var bara allt viðhald skorið niður og því var nánast hætt á tímabili. Það hinsvegar kemur að skuldadögum í því og það er bara einfaldlega komið að því núna og við komumst hreinlega ekki undan því að komast í lágmarks endurbætur á þessu húsnæði á Litla-Hrauni,“ útskýrir Páll.

Um er að ræða hefðbundið viðhald en ekki fjölgun eða breytingu fangarýma að sögn Páls. Klefar hafi verið orðnir sjúskaðir, sturtuaðstaða ófullnægjandi og raunar aðbúnaður allur í húsinu og því hafi löngu verið kominn tími á endurbætur.

Fangar fluttir í önnur rými

Loka þurfti húsnæðinu öllu og flytja þá fanga sem þar dvöldu í annað rými. „Hvort sem það voru önnur fangelsi eða önnur hús á Litla-Hrauni sem þýddi þá aftur að við þurftum að hægja á boðun í fangelsi. Við sáum fram á það að missa þetta húsnæði út í að minnsta kosti þrjá mánuði en eins og ég segi þá höfðum við bara ekkert val,“ segir Páll.

Framkvæmdir hófust um mánaðamótin júní og júlí og mun þeim ljúka í haust. Þá er gert ráð fyrir að hægt sé að hafa 90-95% nýtingu fangarýma líkt og hefur verið undanfarin ár að sögn Páls.

Páll Egill Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins.
Páll Egill Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar ríkisins. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Öll gæsluvarðhaldseinangrun hefur verið flutt frá Litla-Hrauni og yfir á Hólmsheiði og eru rýmin á Litla-Hrauni nú aðeins nýtt undir hefðbundna afplánun. Þar voru sex einangrunarklefar og öryggisgangur en klefunum sem notaðir voru undir einangrun hefur verið breytt og þar nú vistaðir afplánunarfangar að sögn Páls.

„Engin fita“ eftir í starfsmannamálum

„Eftir því sem við nýtum heimildir til afplánunar utan fangelsa meira, þeim mun þyngri verður hópurinn sem er inni. Þannig að starf fangavarða er ekki að verða auðveldara,“ segir Páll. Skortur á fangavörðum er meginástæða þess að afköst fangelsisins á Hólmsheiði eru ekki fullnýtt. Þar væri hægt að vista fleiri fanga en nú er gert, jafnvel þótt gera þurfi ráð fyrir einhverjum lausum rýmum undir gæsluvarðhaldsfanga, ef fangaverðir væru fleiri.

Þótt fangarými á Litla-Hrauni verði svo gott sem fullnýtt þegar endurbótum á húsnæði líkur í haust segir Páll ljóst að ekki veitti þó af frekari mannafla á Litla-Hrauni.

„Ég get með góðri samvisku sagt að það sé hvergi neins staðar nein fita eftir í starfsmannamálum í fangelsiskerfinu. Við erum búin að skera niður um yfir 20% frá hruni þannig að við erum ekki ofmönnuð neins staðar og það á ekki við á Litla-Hrauni frekar en annars staðar,“ segir Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert