Borgarstjóri var upplýstur um minjarnar

Hluti hins forna Víkurkirkjugarðs náði inn á bílastæði við Landssímahúsið. …
Hluti hins forna Víkurkirkjugarðs náði inn á bílastæði við Landssímahúsið. Þar hefjast framkvæmdir við hótelbyggingu síðar á þessu ári. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og aðrir fulltrúar í borgarráði fengu á síðasta ári ítarlega kynningu á fornleifarannsókninni á bílastæði Landssímahússins við Kirkjustræti þar sem áður var hluti elsta kirkjugarðs í Reykjavík, Víkurgarðs. Þeir voru þá upplýstir um að þar hefðu fundist minjar frá því fyrir kristnitöku sem að öllum líkindum væru trúarlegs eðlis.

Borgarstjóri segir ákveðið að tillögu Minjastofnunar að efna til samkeppni um umgjörð Víkurkirkjugarðs hins forna í miðbæ Reykjavíkur. Þá sé Borgarsögusafn að undirbúa tillögur um hvernig best sé að minnast sögu og minja á svæðinu.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir hann það sér metnaðarmál að standa vel að verki og lyfta þessari sögu. Deilt hefur verið um skipulag og framkvæmdir á svæðinu.

Borgarstjóri hefur áður svarað því til að hann telji rétt að halda framkvæmdunum áfram og ljúka hótelbyggingunni. Vitneskjan um hinar heiðnu minjar hefur því ekki breytt afstöðu hans.

Frestur sem almennir borgarar hafa til að gera athugasemd við hótelbygginguna rennur út 15. september. Dagur segir í svarinu að hann hafi mikinn áhuga á að „gera þessari sögu og eftir atvikum einstökum gripum góð skil og gera þá aðgengilega borgarbúum, almenningi og gestum borgarinnar þegar rannsóknum lýkur, á veglegan hátt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert