Hafa ekki eftirlit með varafyllingum

Hér sést hvernig fylliefnum er sprautað í kringum varir.
Hér sést hvernig fylliefnum er sprautað í kringum varir. Ljósmynd/ThinkstockPhotos

Engar reglur eru um að sérstakt leyfi þurfi frá heilbrigðisyfirvöldum til að framkvæma fegrunaraðgerðir á vörum á borð við varafyllingar. Aftur á móti ættu aðeins læknar að framkvæma bótox-aðgerðir þar sem um lyf er að ræða. Þetta kemur fram í svari embættis landlæknis við fyrirspurn mbl.is um reglur og eftirlit með hvers konar fegrunaraðgerðum á vörum.

Nokkur umræða hefur verið að undanförnu um svokallaðar varafyllingar, sem jafnan eru framkvæmdar á snyrtistofum, þar sem fylliefni er sprautað í varirnar til að gefa þeim meiri fyllingu. 

Embætti landlæknis hefur aðeins eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum og heilbrigðisþjónustu en ekki snyrtistofum og nær eftirlit landlæknisembættisins því ekki til slíkra fegrunaraðgerða. Aftur á móti hefur embættinu borist kvartanir sem tengjast slíkum aðgerðum og eru þær meðhöndlaðar eins og aðrar kvartanir innan embættisins að því er fram kemur í svari við fyrirspurn mbl.is.

Þá býr embættið ekki yfir nokkurri tölfræði yfir umfang slíkra aðgerða og ekki heldur yfir þær aðgerðir sem framkvæmdar eru af heilbrigðisstarfsfólki enda vilji nær engir lýtalæknar senda embættinu upplýsingar um þá meðferð sem þeir veita þótt þeim beri að gera það lögum samkvæmt.

Loks var spurt hvort embættið telji vera tilefni til þess að auka kröfur og eftirlit með slíkum aðgerðum sem og að halda utan um tölfræði þeirra. Í svarinu kemur fram að Félag húðlækna hafi óskað eftir því að reglur verði settar en það sé í verkahring velferðarráðuneytisins að setja reglur um slíkt. Embætti landlæknis hafi ekki talið það nauðsynlegt hingað til en það geti breyst í framtíðinni.

Húðsjúkdómalæknirinn Monika Fida sprautar hýalúronsýru í varir konu.
Húðsjúkdómalæknirinn Monika Fida sprautar hýalúronsýru í varir konu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert