Áhuginn mun aukast mikið

Magnús segir kaupin á Gylfa munu auka áhuga Íslendinga á …
Magnús segir kaupin á Gylfa munu auka áhuga Íslendinga á Everton, en meðal nýrra stuðningsmanna liðsins hér á landi er sagður vera þjálfari íslenska karlalandsliðsins, Heimir Hallgrímsson.

„Þetta eru frábær kaup, mér líst alveg ljómandi vel á þetta,“ segir Magnús Steindórsson, Eyjamaður og stuðningsmaður Everton, um kaup enska knattspyrnufélagsins Everton á landsliðsmanninum Gylfa Þór Sigurðssyni.

Eftir langar samningaviðræður milli Everton og Swansea gengu félagaskiptin loks í gegn í gær og segir Magnús að það hafi verið talsverður léttir. „Um leið og þetta kom í umræðuna fyrr í sumar varð maður mjög spenntur, núna þegar Liverpool virtist eitthvað ætla að blanda sér í þetta er maður mjög sáttur við að þetta hafi klárast,“ segir Magnús.

Félagaskipti Gylfa gerðu hann að langdýrasta íslenska knattspyrnumanninum, en Everton reiddi fram um 45 milljónir punda fyrir Gylfa, sem er fjórfalt meira en greitt var fyrir Eið Smára Guðjohnsen þegar hann gekk til liðs við Barcelona á sínum tíma.

Spurður um verðmiðann segir Magnús hann ekki vera í neinu ósamræmi við það sem greitt sé fyrir leikmenn í dag. „Þessi markaður er auðvitað ekkert eðlilegur en mér finnst talan mjög venjuleg í samanburði við ýmsa leikmenn,“ segir hann enn fremur.

Fjölgar í Everton-klúbbnum

Að sögn Magnúsar verður koma Gylfa til þess að ýmsir Liverpool-menn neyðist til að skipta um lið. Meðal þeirra er góðvinur Magnúsar, þjálfari íslenska karlalandsliðsins, Heimir Hallgrímsson. „Það sem gerir mig hvað ánægðastan með þessi kaup er að nú veit ég að vinur minn Heimir Hallgrímsson mun þurfa að gerast stuðningsmaður Everton. Hann hefur alltaf verið stuðningsmaður Liverpool en hann getur lítið annað gert en að styðja landsliðsmenn sína og þar af leiðandi styðja liðin þeirra, sem ég veit að hann gerir. Ég er því mjög ánægður að fá hann inn í stuðningsmannaklúbb Everton í Vestmannaeyjum,“ segir Magnús, sem stefnir á að fara á leik með liðinu í vetur.

„Maður verður eiginlega að fara í vetur og sjá einn leik hið minnsta, það er eiginlega ekki annað hægt núna þegar Gylfi er mættur á svæðið,“ sagði Magnús að lokum.

Býst við að treyjan seljist vel

„Við pöntuðum um 150 Everton- treyjur í fyrrakvöld,“ segir Viðar Valsson, verslunarstjóri Jóa útherja, um kaupin á Gylfa Þór Sigurðssyni til Everton.

Viðar segir að sökum þess hve lengi kaupin voru að ganga í gegn séu treyjurnar ekki væntanlegar alveg á næstunni. „Venjulega erum við að panta þetta með hálfs árs fyrirvara en við fáum að vita fljótlega hvenær við getum átt von á þessu,“ segir Viðar, sem býst við að treyjan muni seljast vel. „Þetta er lið sem stuðningsmenn flestra annarra liða í deildinni þola ágætlega. Ég held þar af leiðandi að ýmsir muni kaupa sér treyjuna þrátt fyrir að styðja annað lið í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Viðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert