Æðstu stofnanir greiði áfengisgjald

Greiða þarf áfengisgjald af víninu á Bessastöðum nái tillögur ríkisstjórnarinnar …
Greiða þarf áfengisgjald af víninu á Bessastöðum nái tillögur ríkisstjórnarinnar fram að ganga. Kristinn Magnússon

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag tillögu fjármálaráðherra um að undanþágur æðstu stofnana ríkisins frá áfengisgjöldum skuli afnumdar. Samkvæmt núgildandi lögum þurfa embætti forseta Íslands, Alþingi, ráðuneyti og embætti biskups Íslands ekki að greiða áfengisgjöld af kaupum, sé áfengið nýtt í opinberum erindagjörðum svo sem veislum.

Í tilkynningu frá fjármálaráðuneyti segir að þau fríðindi jafngildi skattastyrk úr ríkissjóði. „Þessar reglur voru barn síns tíma og mér þótti við hæfi að færa þær til nútímans og gera kostnað vegna áfengiskaupa gegnsærri. Eitt á yfir alla að ganga í þessu sem öðru,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra. Í fyrra nam eftirgjöf áfengisgjalda opinberra stofnana 10,5 milljónum króna. Ekki er gert ráð fyrir að ráðuneytum verði bættur upp aukinn áfengiskostnaður með auknum fjárframlögum. Erlend sendiráð og alþjóðastofnanir verða þó áfram undanþegnar gjaldinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert