Björn Valur hættir sem varaformaður

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason Ómar Óskarsson

Björn Valur Gíslason, fyrrverandi þingmaður, mun ekki gefa kost á sér til áframhaldandi varaformennsku í Vinstri grænum á landsfundi flokksins sem fram fer 6.-8. október. Þetta kemur fram í yfirlýsingu á heimasíðu hans sem birtist nú fyrir skömmu.

Björn var kjörinn varaformaður á landsfundi flokksins árið 2013 og tók við af Katrínu Jakobsdóttur sem á sama fundi var kjörin formaður. Í yfirlýsingunni segir að síðan þá hafi flokkurinn styrkt stöðu sína til muna og sé nú helsta hreyfiaflið í íslenskum stjórnmálum. Honum þyki tímabært að hætta á þessum tímapunkti og draga sig í hlé frá pólitískum störfum eftir áratuga afskipti af stjórnmálum.

Björn var bæjarfulltrúi Vinstrimanna og óháðra í Ólafsfjarðarbæ árin 1986–1998 og varaþingmaður Alþýðubandalagsins 1990. Þá sat hann á þingi fyrir Vinstri græn 2009-2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert