Ölvaður rútubílstjóri sviptur réttindum

Um 300 bílstjórar starfa hjá Kynnisferðum.
Um 300 bílstjórar starfa hjá Kynnisferðum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Rútubílstjóri hjá Kynnisferðum, sem tekinn var fyrir ölvun við akstur um verslunarmannahelgina og sviptur ökuréttindum til bráðabirgða, starfar ekki lengur hjá fyrirtækinu. „Við tökum mjög fljótt og hart á svona málum,“ segir Kristján Daníelsson, forstjóri Kynnisferða/Reykjavík Excursions. 

Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Suðurlandi var maðurinn stöðvaður vegna gruns um ölvun við akstur að kvöldi laugardagsins 5. ágúst vestan við Hnappavelli, skammt frá Jökulsárlóni. Öndunarsýni sýndu fram á að hann var ölvaður og var hann því handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem tekið var blóðsýni til frekari staðfestingar. Slíkt er viðtekin venja samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Suðurlandi. Þegar niðurstöður úr blóðsýnarannsókn liggja fyrir verður maðurinn kærður.

Kristján segir málið einstakt hjá fyrirtækinu í sinni forstjóratíð. Um 300 bílstjórar starfa hjá Kynnisferðum.

Mikill vöxtur og vöntun á bílstjórum

Í ítarlegri grein DV um málið og fleiri tilvik sem tengjast Kynnisferðum, segir að bílstjórinn sé Íslendingur á fimmtugsaldri. Í greininni segir ennfremur: „Samkvæmt heimildarmönnum DV er það altalað meðal rútubílstjóra hjá BSÍ og víðar að [Kynnisferðir] taki ekki á þessum málum.“

Spurður um þessa fullyrðingu svarar Kristján því til að hart og fljótt sé tekið á málum sem koma upp hjá fyrirtækinu. „Síðustu ár hefur verið mikill vöxtur hjá okkur og vöntun á bílstjórum,“ segir Kristján. „Við þurfum að aðlaga okkur að breyttu umhverfi. Við erum með tiltölulega strangt og gott ráðningarferli sem og kennslu- og innleiðingarferli. En í stóru fyrirtæki eins og okkar gerast hlutir og við tökum einfaldlega á því. Margt af þessu er þess eðlis að við getum ekki tekið á því fyrr en eftir á í raun.“

Í gegnum tíðina hafa mál er tengjast ölvun atvinnubílstjóra komið inn á borð lögreglunnar á Suðurlandi. Samkvæmt upplýsingum hennar gerist slíkt ekki oft. Í slíkum tilvikum ber ökumaðurinn sök samkvæmt lögum, ekki fyrirtækið sem hann starfar hjá. Viðurlög við ölvunarakstri atvinnubílstjóra eru þau sömu og ölvaðra ökumanna almennt.

Kristján Daníelsson, forstjóri Kynnisferða.
Kristján Daníelsson, forstjóri Kynnisferða. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert