Kerfisbreytingar lagðar til hliðar

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert

„Manni virðist þessi ríkisstjórn í raun og veru snúast fyrst og fremst um að viðhalda ákveðinni hægrisinnaðri efnahagsstjórn, sveltistefnu í garð almannaþjónustu og skattabreytingum sem eru ekki til þess að auka jöfnuð heldur þvert á móti. Aðrar áherslur sem flokkar eins og Björt framtíð og Viðreisn, sem vildu kenna sig við kerfisbreytingar, töluðu fyrir í aðdraganda kosninga virðast hins vegar hafa verið lagðar til hliðar.“

Frétt mbl.is: Hægristefnan lím ríkisstjórnarinnar

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, í samtali við mbl.is en flokksráðsfundur flokksins fór fram í dag. Þetta sæist ekki síst í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem væri í raun eina stefnumótandi plaggið sem komið hefði frá ríkisstjórninni. „Það sem ég myndi vilja gera sérstaklega að umtalsefni, kannski vegna þess að mér þykir það ekki hafa fengið nægjanlegt vægi, eru skólamálin og sú stefnubreyting sem varð í þessari fjármálaáætlun miðað við þá síðustu.“

Þannig væri það nú opinbert markmið ríkisstjórnarinnar að fækka nemendum. „Fjármunir eru til að mynda teknir frá framhaldsskólunum sem fyrri ríkisstjórn meira að segja ætlaði að halda þar inni. Þannig að manni virðist þetta vera að snúast á enn verri veg gagnvart almannaþjónustunni og innviðum velferðarkerfisins. Bæði varðandi skólamálin og eins og ekki síður kjör verst settu hópanna eins og aldraðra og öryrkja sem ég hef verulegar áhyggjur af út frá þeirri framtíðarsýn sem birtist í áætluninni.“

Töluðu um innviðauppbyggingu fyrir kosningar

Katrín bendir á að mikið hafi verið talað um innviðauppbyggingu fyrir síðustu þingkosningar og þá ekki síst af Bjartri framtíð og Viðreisn en lítið hafi komið út úr því. Sama væri raunar að segja um sérstök áherslumál þessara flokka, eins og varðandi Evrópusambandið og breytingar á sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum, sem þeir hefðu lagt ríka áherslu á fyrir kosningar en þar virtist sem meira væri um orð en athafnir. 

„Hins vegar markar flokksráðsfundurinn upphaf undirbúnings okkar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor,“ segir Katrín. Spurð um þingveturinn framundan segir hún hann leggjast ágætlega í sig. Síðasti þingvetur hafi verið nokkuð sérstakur með þingkosningum og kosningabaráttu og síðan löngum tíma sem farið hefði í stjórnarmyndunarviðræður. Því hafi ekki mörg mál verið tekin fyrir.

„Ég hygg hins vegar að það hljóti að verða mjög miklar umræður um fjármálafrumvarpið í haust einfaldlega í ljósi þess hversu margt er umdeilt í fjármálaáætluninni sem á að raungera í fjárlögunum. Ég nefni til dæmis virðisaukaskatt á ferðaþjónustu, sem miklar deilur virðast standa um innan stjórnarflokkanna, og fleiri atriði þannig að ég á von á því að þetta verði viðburðaríkur vetur í þinginu,“ segir hún ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert