Síðasti karlkyns geirfuglinn fundinn

Hér er hann: Síðasti karlkyns geirfuglinn. Hann má finna á …
Hér er hann: Síðasti karlkyns geirfuglinn. Hann má finna á náttúrufræðisafni í Belgíu. Af vef Náttúruminjasafns Íslands

Hamur karlkyns geirfugls sem drepinn var í Eldey fyrir 173 árum kom í leitirnar á Konunglega belgíska náttúrufræðisafninu í Brussel. Kvenfuglinn sem drepinn var við þetta sama tækifæri er ófundinn. Þetta kemur fram í frétt á vef Náttúruminjasafns Íslands.

Sagt er ítarlega frá málinu í Fréttablaðinu í dag. Þar er haft eftir Álfheiði Ingadóttur, líffræðingi hjá Náttúruminjasafninu, að um stórfrétt sé að ræða.

Talið er að síðasta geirfuglaparið hafi verið drepið í Eldey í júní árið 1844. Þar með hafi tegundin orðið útdauð.

Hópi vísindamanna, m.a. frá Danmörku, Noregi, Þýskalandi og Nýja-Sjálandi, tókst að finna karlfuglinn með því að bera saman erfðaefni úr vélinda hans, sem geymt er í Kaupamannahöfn, við erfðaefni úr fjórum hömum á söfnum í Þýskalandi, Bandaríkjunum og Belgíu.

Vitað er að bæði innyflin og hamir parsins komu á náttúrufræðisafnið í Kaupmannahöfn 1844 og þar hafa innyfli fuglanna síðan verið varðveitt. Hins vegar hurfu hamirnir. Þeir voru á árinu 1845 skráðir í eigu þekkts safnara í Kaupmannahöfn en síðan ekki söguna meir og hafa sagnfræðingar og náttúruvísindamenn reynt að leysa gátuna um hvar þeir væru niður komnir.

Í frétt Náttúruminjasafnsins segir að vísbendingar séu um hvar ham síðasta kvenfuglsins sé að finna. 

Geirfuglar, sem voru af álkuætt, voru veiddir til matar fyrr á öldum en er þeim fór að fækka verulega fóru safnarar og opinber söfn að greiða háar fjárhæðir fyrir þá. Talið er að um áttatíu uppstoppaðir geirfuglar séu til í dag. Einn þeirra er í eigu Náttúruminjasafns Íslands en hann fékkst á uppboði í London árið 1971 að undangenginni landssöfnun.

Einn uppstoppaður geirfugl er til hjá Náttúruminjasafni Íslands.
Einn uppstoppaður geirfugl er til hjá Náttúruminjasafni Íslands. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert