Gera sjónvarpsþáttaröð um feril Eiðs Smára

Didier Drogba, John Terry og Eiður Smári fagna Englandsmeistaratitli Chelsea …
Didier Drogba, John Terry og Eiður Smári fagna Englandsmeistaratitli Chelsea vorið 2005. Reuters

Tökur hófust í vikunni á sjónvarpsþáttaröð um knattspyrnuferil Eiðs Smára Guðjohnsen, fyrrverandi landsliðsfyrirliða Íslands. Í þáttunum verða heimsótt flest þau félög sem Eiður hefur leikið með á löngum og glæsilegum ferli, til dæmis Chelsea og Barcelona, og rætt við ýmsa fyrrverandi leikmenn, bæði samherja Eiðs og mótherja.

Þeir verða tveir á ferð í þáttunum, Eiður Smári og æskuvinur hans, sjónvarpsmaðurinn Sverrir Þór Sverrisson, Sveppi.

Það er Pegasus sem framleiðir þættina en þeir verða sýndir í Sjónvarpi Símans snemma árs 2018. Þáttaröðin verður kölluð Gudjohnsen.

„Þetta verða sex þættir,“ segir framleiðandinn, Lilja Snorradóttir. „Tökur hófust í vikunni þegar Eiður hitti strákana sem spiluðu með honum í 6. flokki og þjálfara þeirra. Þeir tóku vináttuleik og allt var mjög vel heppnað og skemmtilegt.“

Félagarnir fara á flakk í september þegar upptökur hefjast af fullum krafti en þeim lýkur snemma í nóvember þegar leikur Chelsea og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni fer fram í London.

„Við höfum verið í samskiptum við nokkra þeirra klúbba sem Eiður lék með og þetta gengur í raun miklu betur en við þorðum að vona. Allir eru með opnar dyr; Eiður Smári nýtur greinilega mikillar velvildar úti,“ segir Lilja Snorradóttur. Leikstjóri þáttanna er Kristófer Dignus.

Snillingarnir Ronaldino, þá opinberlega besti knattspyrnumaður heims, og Andrés Iniesta, …
Snillingarnir Ronaldino, þá opinberlega besti knattspyrnumaður heims, og Andrés Iniesta, fagna marki sem Eiður Smári gerði fyrir Barcelona í spænsku deildinni árið 2006. Reuters
Eiður Smári, lengst til hægri í aftari röð, og gamlir …
Eiður Smári, lengst til hægri í aftari röð, og gamlir samherjar hans í ÍR hittust í vikunni þegar tökur hófust. Á neðri myndinni eru þeir í 6. flokki á sínum tíma. Sveppi neðst til vinstri. mbl.is
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert