Blöskraði leyndarhjúpurinn

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Golli

„Ég fékk fjölda spurninga frá almenningi og aðstandendum,“ segir Þór­hild­ur Sunna Ævars­dótt­ir, þingmaður Pírata í alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd, í samtali við mbl.is. Hún óskaði í síðasta mánuði eftir spurningum frá almenningi er varða uppreista æru Roberts Downeys og ætlar að bera þær upp á nefndarfundi.

Þórhildur segir að það styttist í fundinn og hún muni taka saman þær spurningar sem helst brenni á fólki og þær sem henni þykja áhugaverðastar. Enn sé tími til að senda henni spurningar.

Fjallað hefur verið um málið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í sumar en Þórhildur bendir á að sú nefnd hafi eftirlit með störfum ráðherra og framkvæmdavaldinu. „Málaflokkurinn fellur undir verksvið allsherjar- og menntamálanefndar. Ef það kæmi í hlut einhvers að breyta lögunum um uppreista æru þá væri það allsherjar- og menntamálanefnd.“

Þess vegna segir þingmaðurinn að það sé mikilvægt að nefndin sé upplýst um hvernig kerfið hafi komið fram við fólk og hverjir gallarnir séu. Sömuleiðis hvernig dómsmálaráðherra hyggist breyta því, þótt Þórhildi finnist ekki nógu skýrt hvernig ráðherra ætli að bregðast við.

Vill að fundurinn verði opinn

„Ég myndi vilja fá það á hreint beint frá henni í heyranda hljóði hvernig hún hyggst standa að þessum breytingum og ég tel mikilvægt að almenningur heyri það líka,“ segir Þórhildur og bætir við að hún skilji ekki hvers vegna fundir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um málið hafa verið lokaðir.

„Mér blöskraði að fundir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar skyldu jafn lokaðir og huldir leyndarhjúpi og þeir voru. Þess vegna hef ég óskað eftir því að þessi fundur verði opinn gestum og fjölmiðlum til að almenningur geti verið með. Mér finnst mikilvægt að nefndin leggi sig fram við að hlusta og skilja hvað fór úrskeiðis í þessu máli til að tryggja að svona atvik endurtaki sig ekki. Það er okkar hlutverk að breyta og bæta lögin og vinna frumvarp sem kemur frá ráðherra.

Ekkert sem grípur brotaþola

Auk þess hefur Þórhildur óskað eftir fundi þar sem farið verður yfir réttarstöðu þolenda í kynferðisafbrotamálum. Hún segir mikilvægt að fara yfir ferlið og hvernig sé hægt að bæta það. „Eins og staðan er núna, hafandi talað við nokkra þolendur sem hafa farið í gegnum kæruferlið, þá er ekkert sem heldur utan um brotaþola í kerfinu eftir að þeir kæra,“ segir hún og bætir við að brotaþolar hafi ekki nógu góða stöðu innan kerfisins. 

Það er ekkert sem grípur brotaþola, heldur utan um og leiðir í gegnum þetta erfiða ferli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert