„Þetta er algjör viðbjóður“

Jóhannes birti ummælin á Snapchat í gær.
Jóhannes birti ummælin á Snapchat í gær.

„Þetta er algjör viðbjóður,“ segir Jóhannes Eggertsson, sem heldur úti Snapchat-aðganginum joalifið, en hann útbjó í gær aðgang að stefnumótavefnum Einkamál.is sem fjórtán ára gömul stúlka og fékk yfir 250 skilaboð frá körlum sem vildu komast í kynni við „stúlkuna“. Jóhannes segir það hafa drepið sig að innan að lesa skilaboðin frá körlunum.

„Það væri spennandi að setja í 14 ára“

Meðal skilaboða sem bárust voru frá 52 ára karli sem sagði: „Það væri spennandi að setja í 14 ára.“ Þá óskuðu sumir eftir myndum af stúlkunni þar sem hún væri ekki mikið klædd, og lofuðu henni að sýna engum. Auk þess bárust spurningar um það hvort stúlkan væri í peningaleit. Einn maðurinn bauð stúlkunni að hitta sig þar sem hann yrði einn í íbúð á þriðjudag.

Þá sendi 53 ára gamall karlmaður skilaboðin: „Við getum alveg spjallað saman er það ekki? Ég skal engum segja frá hvað þú ert gömul.“

„Það drap mig alveg að innan að lesa allt sem þeir voru að senda „henni“. Ég hugsaði bara: hvað ef 14 ára stúlka væri í raun að fá þessi skilaboð frá 30-55 ára karlmönnum,“ segir Jóhannes. Bætir hann við að þau skilaboð sem hann sýndi á Snapchat hafi aðeins verið brotabrot af þeim hundruðum skilaboða sem bárust.

Skjáskot

Ekki hægt að kæra í málum sem þessum

Spurður um það hvernig hugmyndin hafi komið að búa til aðganginn segir hann hana komið út frá YouTube-myndbandi sem hann sá þar sem reynt var að hafa uppi á barnaníðingum (e. catch a predator). Segist hann hins vegar aldrei hafa átt von á því að yfir 250 manns myndu hafa áhuga á kynnum við 14 ára stúlku.

Jóhannes hafði samband við lögreglu, þar sem honum var tjáð að ekki væri hægt að kæra í málum sem þessum. Þá hafði hann tilkynnt á Snapchat að hann hygðist mæta á fund einhvers mannanna til að horfast í augu við hann og leyfa fylgjendum sínum að fylgjast með, en var tjáð af lögreglu að hann gæti komið sér í vandræði með því að myndbirta þessa aðila.

Skjáskot

Stofnar vefsíðu með leiðbeiningum fyrir foreldra

Jóhannes hyggst samt sem áður leggja sitt af mörkum til að uppræta barnaníð. „Eftir þessa upplifun og að sjá hvernig þetta raunverulega er og hvað litla Ísland getur verið hræðilegt tók ég ákvörðun um að stofna vefsíðu sem mun innihalda leiðbeiningar fyrir foreldra hvernig hægt sé að fylgjast betur með börnunum og gera aðgang þeirra á samfélagsmiðlum öruggari,“ segir Jóhannes.

Á vefsíðunni hyggst hann einnig hafa leiðbeiningar um það hvernig hægt sé að loka fyrir ákveðnar síður. Reiknar hann með því að koma vefsíðunni í loftið á næstu vikum.

Hér fyrir neðan má sjá myndbandið:

Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert