„Gerðir þú brotaþola eitthvað?“

Thomas Möller Olsen, sem ákærður er fyrir að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana þann 14. janúar síðastliðinn, segir það ekki mögulegt að hann hafi gert henni eitthvað án þess að muna eftir. Hann gaf fyrr í morgun skýrslu fyrir dómi, en aðalmeðferð sakamáls á hendur honum, fer fram í Héraðsdómi Reykjaness í dag.

Hér er hægt að fylgj­ast með beinni texta­lýs­ingu úr dómsal

Páll Rúnar Kristjánsson, verjandi Thomasar, spurði hann fyrir dómi beint út hvort hann hafi skaðað Birnu:

„Gerðir þú brotaþola eitthvað?“

„Nei.“

„Hjálpaðir þú öðrum við það?“

„Nei.“

„Slóstu hana?“

„Nei.“

„Tókstu hana hálstaki?“

„Nei.“

„Er möguleiki á að þú hafir gert eitthvað en þú munir ekki eftir því?“

„Nei.“

Þá bað Páll Thomas að útskýra það betur af hverju framburður hans nú sé gjörbreyttur frá þeim sem hann gaf við skýrslutökur hjá lögreglu fyrr á þessu ári. Thomas ítrekaði að hann hafi verið stressaður og að lögreglan hafi verið vond við hann. Það hafi ekki verið fyrr en hugurinn og líkaminn fóru að róast að lokinni einangrun að hann gat farið að tjá sig.

Skýringar Thomasar á breyttum framburði eru mjög svipaðar og þær sem hann gaf saksóknara fyrr í morgun.

„Ég var í einangrun og var mjög stressaður. Lögreglan kom inn til mín á tveggja tíma fresti og öskraði á mig. Hún var ekki góð við mig. Ég náði ekki sambandi við fjölskylduna mína eða kærustuna mína og vissi ekki hvað var að gerast. Þegar ég kom úr einangrun og gat haft samband við þau þá róaðist ég og ég gat farið að tjá mig um það sem hafði gerst. Með tímanum þá róaðist líkaminn og hugurinn og þá mundi ég þetta allt mun betur,“ segir Thomas um ástæðu þess að hann breyti framburði sínum nú.

Verjandi spyr af hverju hann hafi gefið rangan framburð í upphafi og hann segist bara hafa viljað hjálpa.

Hann spyr hvað hafi gerst þegar hann var handtekinn í skipinu og Thomas lýsir því þegar sérsveitin seig niður í skipið með hríðskotabyssur og hann hafi strax verið handtekinn. Lögreglan hafi ekki sagt honum hvað hafi gerst heldur sagt að hann hafi gert það. Hann segist hafa verið mjög óttasleginn á þessum tíma.

Verjandi spyr hvort Thomas hafi snert ökuskírteini Birnu. „Ég hafði aldrei séð nafnið eða myndina af henni,“ svarar hann. Thomas segist ekki vita hvort hann hafi snert skírteinið óvart. Verjandi spyr einnig út í föt Thomasar og hvort hann hafi hent einhverju. Hann svarar því neitandi.

Verjandi spyr hvort það sé eðlilegt að hann muni lítið eftir að hafa drukkið áfengi og hann svarar því játandi. Þá segist hann stundum keyra bíl eftir að hafa drukkið áfengi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert