Missir félagslega íbúð vegna framkvæmda

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að Félagsbústöðum hf. sé heimilt að bera mann út úr félagslegri íbúð í Reykjavík, þar sem rífa á húsið.

Í dómnum kemur fram að leigusamningi við manninn hafi verið sagt upp þann 27. október 2015, en hann hafði þá búið í íbúðinni í tíu ár. Var honum gefinn 12 mánaða uppsagnafrestur og gert að yfirgefa íbúðina ekki síðar en 1. nóvember 2016. Það hafi hann hins vegar ekki gert og sitji þar enn samningslaus.

Skoruðu Félagsbústaðir ítrekað á manninn að yfirgefa húsnæðið, en „vegna tregðu varnaraðila til að rýma húsnæðið hafi ekki verið unnt að fastsetja upphafstíma framkvæmda á lóðinni,“ segir í dómnum.

Taldi ástæður fyrir uppsögninni ekki réttmætar

Maðurinn sagði að ekki væru réttmætar ástæður fyrir uppsögn leigusamningsins. Byggði hann á því að réttarstaða hans og Félagsbústaða væri ekki með sama hætti og á almennum leigumarkaði. Ábyrgð á félagsþjónustunni hvíli á Reykjavíkurborg og borgin verði að tryggja að hann eigi að vera eins settur og ef hann leigði íbúðina beint af borginni.

Þá byggði hann á því að það væri stjórnvaldsákvörðun að segja upp leigusamningnum og því hafi Félagsbústöðum verið skylt að gæta að reglum stjórnsýsluréttarins í málinu. Jafnframt sagði hann skipulagsbreytingarnar ekki hafa verið útskýrðar.

„Hvorki Reykjavíkurborg né sóknaraðili hafi komist að þeirri niðurstöðu að varnaraðili uppfylli ekki lengur skilyrði til þess að fá úthlutað félagslegu húsnæði. Vilji sóknaraðili fá varnaraðila út úr umræddu húsnæði verði hann að bjóða varnaraðila annað sambærilegt húsnæði,“ segir í málsástæðum mannsins.

Kunnugt um áformin í langan tíma

Sögðu Félagsbústaðir aftur á móti að þar sem löglega hafi verið staðið að uppsögn leigusamningsins sé maðurinn samningslaus og beri því að víkja úr húsnæðinu, sem verði rifið í framhaldinu vegna fyrirhugaðra framkvæmda á lóðinni. Húsnæðið sé í flokki skipulagseigna, þ.e. að um sé að ræða eldri eign sem þurfi að víkja af skipulagsástæðum. Manninum hafi verið kunnugt um þessi áform í langan tíma.

„Fyrir liggur að varnaraðili hefur búið í umræddu húsnæði um árabil ásamt fjölskyldu sinni og óráðnum fjölda hunda og katta. Af gögnum málsins má ráða að húsnæðið er í slæmu ástandi og var það mat Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í júní 2015 að húsnæðið væri heilsuspillandi og óíbúðarhæft vegna óþrifa, slæmrar umgengni og skorts á viðhaldi. Vegna andmæla varnaraðila var húsnæðið skoðað að nýju 3. júlí s.á. og var það þá metið íbúðarhæft þó að talsvert skorti á viðhald,“ segir í dómnum.

Þá kemur fram að Félagsbústaðir hafi leiðbeint manninum ítrekað um rétt hans til að sækja um svokallaðan milliflutning, þ.e. að fá annað íbúðarhúsnæði í staðinn fyrir það sem hann bjó í.

Féllst dómurinn ekki á það að Félagsbústaðir hafi ekki gætt að reglum stjórnsýsluréttarins. Loks féllst dómurinn á að maðurinn yrði borinn út úr fasteigninni ásamt öllu því sem honum tilheyrir. Var málskostnaður felldur niður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert