Þaulvanur hrútaþuklari

Dæma þurfti fjóra hrúta; Kraft, Mána, Kappa og Hött, en …
Dæma þurfti fjóra hrúta; Kraft, Mána, Kappa og Hött, en hér er verið að skoða hinn kollótta Kappa. 45 manns tóku þátt í Íslandsmeistaramótinu sem fór nú fram í 15. skipti en um 300 manns fylgdust með keppninni. Ljósmynd/Sauðfjársetrið á Ströndum

Íslandsmeistaramótið í hrútadómum fór fram í 15. skipti á Sauðfjársetrinu á Ströndum á sunnudaginn. 45 keppendur tóku þátt í mótinu í flokkum vanra og óvanra hrútaþuklara.

Keppendurnir þurftu að þukla fjóra hrúta og gefa ákveðnum skrokkhlutum þeirra einkunn, sigurvegari varð sá sem komst næst einkunnagjöf dómnefndarinnar sem hafði dæmt hrútana fyrir keppni. Það var sauðfjárbóndinn Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum á Ströndum sem bar sigur úr býtum í flokki vanra þuklara og er þetta í annað sinn sem hann hampar titlinum.

„Ég hef tekið nokkuð oft þátt og hef fengið að verma öll sætin held ég,“ segir Guðbrandur um þátttöku sína í hrútaþuklinu. Spurður hvað hann hugsi út í þegar hann er að dæma hrútana segist hann reyna að sjá fyrir sér lambsskrokk sem sé að fara í vinnslu. „Þá þurfa lærin að vera þykk og vöðvamikil og hryggurinn kjötmikill. Það voru um tíu keppendur sem höfðu röðina á hrútunum eins og dómnefndin en við þrjú sem príluðum á pallinn vorum næst þeirra einkunnum.“

Kjötmiklar og skapgóðar

Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum í 1. sæti, Árný Huld Haraldsdóttir …
Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum í 1. sæti, Árný Huld Haraldsdóttir á Bakka í Geiradal í 2. sæti og Ragnar Bragason á Heydalsá í 3. sæti.


Guðbrandur er með hátt í 300 kinda bú og segir haustið fara í að þukla eigin hrúta. Sjálfur leggur hann áherslu á góð læri, vel holdfyllt bak, fallegan framhluta, og að kindin sé falleg á velli. „Því fylgir nú oft að hún sé þykkvaxin og hægt að finna í henni talsvert af kjöti. Uppleggið sem maður fer með er að finna kjötmestu einstaklingana, ásamt því að það fylgi mjólkurlagni,“ segir Guðbrandur, þá sé hann farinn að horfa til þess, eftir því sem hann eldist, að skapferlið sé gott hjá skepnunum.

Guðbrandur segir Sauðfjársetrið gera mikið fyrir svæðið á Ströndum og að Íslandsmeistaramótið í hrútaþukli brjóti upp tilveruna. „Það kemur fólk víða að sem er mjög gaman og gott. Strandamenn hafa oftast átt efstu sætin en það hafa stundum komið hrekkjalómar frá öðrum svæðum.“ Hann býst við að mæta aftur á mótið að ári og reyna að verja titilinn, án þess að nokkuð sé ákveðið. „Mótið byrjaði núna klukkan tvö og það var ekki ákveðið fyrr en hálftvö að fara. Oftast hefur það verið svoleiðis.“

Einn af vinningunum sem Guðbrandur fékk var gjafabréf í húðflúr. Hann skartar ekki húðflúri en segir að börnin séu nú farin að atast í gamla manninum vegna þessa. „Kannski að maður fái sér hrútshaus á rassinn,“ segir Guðbrandur og hlær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert