Raforkuskortur í Eyjum heyri sögunni til

Hið nýja spennuvirki verður vígt klukkan þrjú í dag.
Hið nýja spennuvirki verður vígt klukkan þrjú í dag. Ljósmynd/HS Veitur

Nýtt spennuvirki verður formlega vígt í Vestmannaeyjum nú klukkan þrjú. HS Veitur og Landsnet stóðu að framkvæmdinni og hefur spennustöðin þegar verið sett af stað. Að sögn Júlíusar Jónssonar, forstjóra HS Veitna, gjörbreytir hið nýja spennuvirki nýtingarmöguleikum á rafmagni í Eyjum.

„Þetta er verkefni sem við unnum með Landsneti. Þeir lögðu 66 megawatta streng til Eyja, en það var ekki hægt að nýta hann vegna þess að það vantaði spennuvirki til að spenna niður úr 66 megawöttum í 33. Þá var ráðist í að byggja þetta spennuvirki sem við byggðum saman. Við erum með rúm sextíu prósent og þeir tæp fjörutíu. Spennuvirkið er komið í rekstur og það stendur til að vígja það formlega nú á eftir,“ segir Júlíus, en flutningsgeta eykst nú úr 25 megawöttum í um 40.

800 milljóna króna framkvæmd

Kostnaður við spennuvirkið er tæpar 800 milljónir króna. Kostnaður HS Veitna er um 520 milljónir og kostnaður Landsnets er um 250 milljónir. Aðspurður segir Júlíus að um mikla búbót sé að ræða fyrir Vestmannaeyinga. Raforkuöryggi aukist nú til muna.

„Það hefur ekki verið hægt að koma nema um 25 megawöttum til Vestmannaeyja sem hefur leitt til þess að bræðslurnar hafa ekki fengið rafmagn og við höfum lent í orkuskorti með ketilinn fyrir hitaveituna í Eyjum. Núna eykst flutningsgetan og meira þegar við höfum lagað mannvirki uppi á landi líka. Þetta gjörbreytir nýtingarmöguleikum hér í Eyjum,“ segir hann.

Spurður hvernig raforkuflutningar til Eyja séu nú í samanburði á landsvísu svarar Júlíus að nú verði hægt að flytja það rafmagn sem þurfi.

„Þetta hefur verið þannig að menn hafa ekki getað fengið rafmagn. Þá hefur þurft að keyra bræðslurnar á olíu og við þurft að keyra ketilinn til að hita upp Eyjuna á olíu að hluta. Nú heyrir það sögunni til. Möguleikar aukast líka á annarri notkun, t.d. landtengingu Herjólfs þegar hann kemur o.fl.“ segir hann.

Reisa einnig varmadælustöð

Aðspurður segir Júlíus að gangsetning spennuvirkisins hafi gengið að óskum og það virkað vel, í það minnsta þegar rafmagn hafi verið á strengnum til Eyja.

„Menn lentu í því að strengurinn bilaði og þá var ekki hægt að nýta þetta á meðan. Það hafði ekkert með spennuvirkið að gera, það kom bara ekki rafmagn til að spenna niður,“ segir hann. Júlíus segir að HS Veitur vinni nú að varmadælustöð í Eyjum.

„Við vonumst til að taka hana í gagnið næsta vor. Það er 1.400 milljóna króna framkvæmd. Með þessu munum við nýta hitann úr sjónum til að hita híbýli Vestmannaeyinga. Nú er vinna í fullum gangi við lagnir og grunn. Þeir eru að komast upp úr jörð með húsið,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert