Listnámið var hennar lán í óláni

Kristbjörg fyrir framan eitt verka sinna. Hún segist heillast mest …
Kristbjörg fyrir framan eitt verka sinna. Hún segist heillast mest af því ósjálfráða og óvænta í málverkinu. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Kristbjörg Ólafsdóttir var sextug þegar hún tók stúdentspróf frá sjónlistadeild Myndlistaskólans í Reykjavík og nýorðin 65 ára þegar hún útskrifaðist með BA-gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands í vor. Brennandi áhugi á listum, hönnun og tísku hefur fylgt henni frá unga aldri, en ýmislegt – til dæmis lífið sjálft – varð til þess að hún fór ekki í listnám, heldur starfaði við viðskipti og verslun lunga starfsævinnar.

Þegar einar dyr lokast opnast aðrar var vinsæll frasi strax eftir hrun. Mest notaður til að stappa stálinu í þá sem misstu vinnuna eða fyrirtæki sín. Kristbjörg Ólafsdóttir, sem í sautján ár hafði átt og rekið Max Mara, kvenfataverslun með ítalskan hátískufatnað, var í þeim hópi haustið 2009. Hún útskrifaðist með BA í listfræði og kynjafræði sem aukafag frá Háskóla Íslands í júní síðastliðnum, nokkrum dögum eftir 65 ára afmælið. Og löngu eftir að hafa í meira en ár komið að lokuðum dyrum á vinnumarkaðnum.

„Kennitalan þótti óheppileg auk þess sem ég var ekki með stúdentspróf. Verslunarskólapróf og víðtæk reynsla bæði sem sjálfstæður atvinnurekandi og áður skrifstofustjóri til margra ára hjá einu stærsta iðnfyrirtæki landsins voru einskis metin, ég var ekki einu sinni boðuð í viðtöl,“ segir Kristbjörg.

Kristbjörg og Finnur.
Kristbjörg og Finnur. mbl.is/Hanna Andrésdóttir


„Þótt þetta væru erfiðir tímar hafði aldrei hvarflað að mér að ég yrði atvinnulaus. Smám saman fóru að renna á mig tvær grímur. Ég velti fyrir mér ríkjandi aldursfordómum og æskudýrkun í þjóðfélagi okkar og hvað í ósköpunum ég, fullfrísk manneskjan, ætti eiginlega að gera. Hæfileikar fólks fara ekki eftir aldri og fáránlegt að afskrifa fólk á þeim forsendum,“ segir Kristbjörg og heldur áfram á öðrum nótum:

„Haustið 2010 heyrði ég svo í útvarpinu að Myndlistaskólinn í Reykjavík byði upp á tveggja ára nám til stúdentsprófs í nýrri sjónlistadeild. Ég fór í inntökupróf, komst inn og settist á skólabekk með ofboðslega frjóum og skapandi krökkum, flestum rúmlega tvítugum. Margir af færustu listamönnum þjóðarinnar kenndu okkur og lögðu sig fram um að leysa úr læðingi sköpunarkraftinn sem bjó í hópnum. Við lærðum listasögu og allt mögulegt sem tengdist listum auk þess sem við fengum tækifæri til að prófa ýmsar aðferðir með tækjum og tólum sem skólinn hafði yfir að ráða.“

Lánsamari en margir

Kristbjörg var hæstánægð í MÍR þar sem hún hafði raunar árum saman samhliða vinnu sótt fjölda námskeiða; m.a. í olíumálun, vatnslitun, litgreiningu og módelteikningu. Stúdentsprófið opnaði henni svo leið til háskólanáms. „Ég var lánsamari en margir að því leyti að maðurinn minn, Finnur Garðarsson, var í fastri vinnu í sínu fagi sem sérfræðingur í sjávarútvegsgeiranum og við gátum lifað af hans tekjum. Rétt eins og fjölskyldan gerði á mínum launum í upphafi búskapar og í Noregi þar sem við bjuggum þegar hann var í framhaldsnámi,“ segir hún.

Kristbjörg og Finnur 11 ára eftir að þau spiluðu einleik …
Kristbjörg og Finnur 11 ára eftir að þau spiluðu einleik á píanó á skólaskemmtun Barnaskóla Akraness. Á myndinni eru þau fyrsta og annað barn frá hægri.


Listnám var ekki skyndileg hugdetta hjá Kristbjörgu heldur draumur hennar frá því hún var lítil stelpa á Akranesi. Á velmektarárum Max Mara kveðst hún þó hafa verið orðin sátt við að hafa listina bara sem hobbí. „Myndlist, hönnun og tíska hafa alltaf verið mín helstu áhugamál. Sem krakki var ég síteiknandi og málandi myndir – og er enn. Ég teiknaði bæði dúkkulísur og fötin á þær sem og föt á sjálfa mig og fékk Tótu, saumakonuna mína á Akri, svo til að sauma. Ég ætlaði að eignast tískuhús í París þegar ég yrði stór,“ rifjar hún upp. Og brosir bara þegar hún er spurð hvort sú fyrirætlan hafi kannski ráðið því að hún fór í Verslunarskólann en ekki í listnám.

„Þótt listnám hafi freistað mín hef ég aldrei séð eftir að hafa farið í Versló. Tölur, stærðfræði og hagfræði heilluðu mig líka. Eins og krakkar af Skaganum sem ætluðu sér í framhaldsnám þurftum við Finnur að flytjast suður aðeins fimmtán ára. Hann fór í Menntaskólann í Reykjavík, var í landsliðinu í sundi og keppti á Ólympíuleikunum 1972, sama ár og við giftum okkur.“

Æskuástir og brauðstritið

Hluti af myndaröð sem var lokaverkefni Kristbjargar í MÍR.
Hluti af myndaröð sem var lokaverkefni Kristbjargar í MÍR. mbl.is/Hanna Andrésdóttir


Að þessu sögðu er ljóst að þau Finnur eiga sér langa sögu saman. Forvitnin er vakin. „Við vorum leikfélagar frá sex ára aldri, urðum snemma skotin hvort í öðru, skrifuðumst á þegar við vorum tíu ára og laumuðum bréfunum í lófa hvort annars þegar enginn sá til,“ segir Kristbjörg, sem enn geymir ástarbréfin.

Bæði voru nýorðin sautján ára þegar Maren, dóttir þeirra, fæddist. Tíu árum síðar leit sonurinn Ólafur Magnús dagsins ljós. Barnabörnin eru fimm. „Þar sem við vorum í námi var Maren um skeið hjá foreldrum mínum á Akranesi. Eða allt þar til Sementsverksmiðja ríkisins nánast tældi mig til að hætta í stúdentsdeildinni í Versló, sem ég var nýbyrjuð í. Ég hafði unnið þar á sumrin sem bókari en þá vantaði heilsársmanneskju. Mér fannst ég ekki geta hafnað starfinu, sérstaklega vegna þess að mig langaði til að vera meira með dóttur minni. Og það vissu þeir í sementinu.“

Brauðstritið tók við og listnám eða annars konar nám beið betri tíma. Náms- og starfsferill Kristbjargar átti eftir að reynast fremur óhefðbundinn. „Öfugsnúinn“ eins og hún orðar það. Enda fáir sem hefja háskólanám rúmlega sextugir. „Í ljósi minnar reynslu finnst mér að þjóðfélagið þurfi að halda sem flestum leiðum opnum til náms fyrir alla sem ekki höfðu tök á að ganga menntaveginn þegar þeir voru ungir en hafa áhuga á að mennta sig síðar á ævinni,“ segir hún.

Olíuverk frá einu af mörgum kvöldnámskeiðum Kristbjargar.
Olíuverk frá einu af mörgum kvöldnámskeiðum Kristbjargar. mbl.is/Hanna Andrésdóttir


Áður en litla fjölskyldan fluttist til Noregs 1980 var Kristbjörg orðin aðalbókari hjá Verksmiðjunni Vífilfelli, framleiðanda Coca Cola á Íslandi. Þá stöðu fékk hún aftur eftir heimkomuna tæpum þremur árum síðar. Skrifstofustjórastaða með tilheyrandi mannaforráðum var handan við hornið. Stúlkan var ekki orðin þrítug og „bara“ með verslunarskólapróf. En það var þá.

Í hringiðu tískunnar

„Mér líkaði afskaplega vel hjá Vífilfelli, leiddist ekki einn einasta dag. Ég vann með góðu fólki, fór á alls konar vinnutengd námskeið og var sífellt að læra eitthvað nýtt,“ segir Kristbjörg og lætur þess til gamans getið að á þessum árum hafi Íslendingar átt heimsmet í kókdrykkju. „Kannski svolítið vafasamur heiður,“ bætir hún við og kímir.

Þrátt fyrir velgengni og ánægju í starfi blundaði í henni að eignast sitt eigið fyrirtæki. „Ég var mikið á Ítalíu á tíunda áratugnum þar sem dóttir okkar var í söngnámi. Þar kynntist ég Max Mara-tískumerkinu, fékk umboð fyrir það á Íslandi og stofnaði í félagi við frænku mína, Þóru Emilíu Ármannsdóttur, samnefnda verslun við Hverfisgötu árið 1992.“

Tveimur árum fyrir hrun keypti Kristbjörg sameiganda sinn út úr fyrirtækinu. „Reksturinn blómstraði fram að hruni, en haustið 2009 varð lokun ekki umflúin. Þrátt fyrir að mínir erlendu samstarfsaðilar vildu semja og væru allir af vilja gerðir var bankinn hér heima alveg þversum,“ segir Kristbjörg einfaldlega og fer ekki nánar út í þá sálma.

Það var þá sem hún kom að öllum dyrum lokuðum á vinnumarkaðnum. En aðrar lukust smám saman upp; menntagáttin. „Eftir stúdentsprófið frá MÍR langaði mig að fara í Listaháskóla Íslands, en þar komast fáir inn svo ég sótti ekki um. Mér fannst að ég, svona gömul, ætti ekki að reyna að taka takmörkuð sæti frá unga fólkinu, sem ætti framtíðina fyrir sér. Og valdi þess í stað listfræði í Háskóla Íslands, sem reyndist alveg ótrúlega skemmtilegt nám.“

Rokkstjarnan Yayoi Kusama

„Skemmtilegt“ er orð sem Kristbjörgu er tamt á tungu. Henni virðist enda þykja flest skemmtilegt. Nema vitaskuld tímabilið þegar hún barðist vonlausri baráttu fyrir tilveru Max Mara á Íslandi. Í listfræðináminu kom upp úr dúrnum að hún þurfti að taka aukafag. Hún valdi kynjafræði, sem var líka – nema hvað – með ólíkindum skemmtilegt. „Fyrir mig, gömlu rauðsokkuna, var gríðarlega áhugavert að vera með í þeim kraumandi pólitísku umræðum sem fram fóru í deildinni og voru á allt öðru plani en ég hafði átt að venjast.“

Og úr því hún minnist á rauðsokkur sem á hippaárunum voru býsna aðsópsmiklar má nefna að BA-ritgerð Kristbjargar, Yayoi Kusama – Tilurð vörumerkis, fjallar um japönsku listakonuna Kusama, sem lét mikið að sér kveða á þeim árum og var hampað eins og rokkstjörnu í listheiminum beggja vegna hafs.

„Hún er orðin 88 ára, kemur sífellt á óvart og er feikilega afkastamikil því auk þess að mála hefur hún gefið út fjölda bóka og hannað fyrir fræg tískuhús og fyrirtæki, til dæmis Louis Vuitton og Coca Cola. Hún lætur ekki aldurinn stoppa sig, málar eins og enginn sé morgundagurinn, skrifar um heimspeki, tilfinningalíf og stöðu konunnar í þjóðfélaginu. Hún er óhrædd við að tengja listsköpun sína tískustraumunum og virðist höfða til fólks á öllum aldri. Ung átti hún við andlega erfiðleika að stríða en lét veikindin ekki aftra sér frá að láta drauma sína rætast. Eftir mikla velgengni í Bandaríkjunum og Evrópu ágerðust geðtruflanirnar og árið 1973 fór hún til Tókýó þar sem hún lét innrita sig á opið geðsjúkrahús þar sem hún hefur búið síðan. Hún vinnur á hverjum degi í stúdíói sem hún lét reisa hinum megin götunnar.“

Spurð hvort áhrif Kusama komi fram í hennar eigin verkum segir Kristbjörg að þau séu kannski ekki sýnileg, hins vegar sé krafturinn, einbeitingin og þrautseigja listakonunnar henni mikill innblástur. Sjálf lætur Kristbjörg ekki deigan síga. Næst á dagskrá er annaðhvort meistaranám í listfræði eða að koma sér upp aðstöðu til listsköpunar. Málverkið heillar, sérstaklega það ósjálfráða og óvænta í því. Hún er hvergi nærri hætt. „Ég er svo ung og hef nægan tíma,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert