Málaði minningarvegg um Bowie

Bowie-veggurinn Björn gerir nokkrum tímabilum í lífi Davids Bowies skil …
Bowie-veggurinn Björn gerir nokkrum tímabilum í lífi Davids Bowies skil á veggnum sem er til minningar um breska tónlistarmanninn. Ljósmynd/Björn Lúðvíksson

Miðbærinn á Akranesi skartar nú vegglistaverki til minningar um tónlistarmanninn David Bowie. Verkið er framtak Björns Lúðvíkssonar, íbúa á Akranesi og mikils Bowie-aðdáanda. Björn fékk hugmyndina að veggnum í kjölfar andláts Bowies í ársbyrjun í fyrra. Þá er farið að gera slíka minningarveggi víða um heim en sá frægasti er í Brixton í London þar sem Bowie ólst upp.

„Það hafði verið að brjótast um í mér að gera slíkan vegg á Íslandi og af því að ég er á Akranesi ákvað ég bara að hafa hann þar. Ég hafði samband við einn góðan Bowie-vin minn sem er grafískur hönnuður, Halldór Randver Lárusson, og spurði hvort hann væri til í að hjálpa mér við að útfæra þetta,“ segir Björn.

Halldór útfærði myndirnar og svo byrjuðu þeir á verkinu 24. maí.

„Við settum myndirnar á glæru og vörpuðum á vegginn og teiknuðum. Svo var ég að mála smá búta í allt sumar, í fríinu og á milli vakta,“ segir Björn, sem vinnur í álverinu á Grundartanga.

Skreytir bæinn með steinum

Björn Lúðvíksson lífgar upp á Akranes.
Björn Lúðvíksson lífgar upp á Akranes.


„Fyrir utan veggi heima hjá mér hef ég ekki málað neitt slíkt áður, þá hef ég ekki stundað veggjakrot eða annað slíkt. En ég hef verið að mála myndir á striga og steina. Ég málaði þjóðfána 35 landa á steina sem eru við Akranesvita, þá málaði ég broskarla á steina sem ég setti hingað og þangað um bæinn. Við vitann eru líka fjórir steinar helgaðir David Bowie og einn Pink Floyd sem ég gerði að beiðni vitavarðarins.“

Minningarveggurinn um Bowie, eða Bjössa Lú-veggurinn eins og hann er stundum kallaður í höfuðið á skapara sínum, er á gafli húss við Kirkjubraut 8 sem er í miðbæ Akraness og hýsti eitt sinn lögreglustöð og veitingahús. Björn segist ekki vita betur en almenn ánægja sé með uppátækið. „Það eru allir að hrósa manni fyrir þetta og segja hvað myndirnar lífgi upp á. Það hefur stundum orðið lítið úr málningarvinnunni því það eru svo margir sem stoppa til að ræða við mig um verkið og Bowie.“

Við vegginn er lítið torg sem býður upp á ýmsa möguleika, en nýverið stoppaði Björn Thoroddsen gítarleikari þar og lék eitt lag fyrir hóp fólks. Björn sér fyrir sér að fleiri slíkar uppákomur eigi eftir að verða við vegginn.

Mismunandi tímabil Bowies

Minningarveggurinn skartar sjö myndum af Bowie frá mismunandi tímabilum á tónlistarferli hans, en veggurinn á sína eigin facebook-síðu, Bowie Tribute Wall, þar sem má m.a. sjá vinnuferlið í kringum hann.

Aðdáandi frá barnsaldri

Bowie hefur verið Birni hugleikinn frá því hann var barn. „Eldri systir mín kom mér á sporið, hún keypti Bowie-plötur á sínum tíma og síðan hélt ég áfram,“ segir Björn sem náði að sjá tónlistarmanninn tvisvar á tónleikum. Hann heldur mest upp á svokallað Berlínartímabil Bowies þegar plöturnar Low, Heroes og The Lodger komu út. „Ætli ég geti ekki sagt að Breaking Glass af Low sé uppáhaldslagið mitt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert