Óhæfur vegna veikinda

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ökumaður sem olli umferðaróhappi í Sólheimum um níuleytið í gærkvöldi var færður á  lögreglustöð þar sem læknir kom og mat ökumanninn óhæfan til að stjórna ökutæki  vegna veikinda.

Nokkuð var um óhöpp og slys á höfuðborgarsvæðinu í gær en líkt og áður hefur komið fram þá slasaðist hjólreiðakona á mótum Háaleitisbrautar og Miklubrautar eftir að hafa orðið undir strætisvagni. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu alvarlega hún er slösuð.

Bíll valt á Þingvallavegi við Leirvogsvatn í gærkvöldi en ökumaðurinn missti stjórn á bifreið sinni með þessum afleiðingum.

Ökumaðurinn var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítalans en hann reyndist óbrotinn en illa marinn. Flytja þurfti bifreiðina af vettvangi.

Síðdegis í gær slasaðist maður á svifvæng þegar hann hrapaði til jarðar. Maðurinn var með hjálm en lenti á öxlinni. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var hann mjög kvalinn og sennilega brotinn. Hann var fluttur á slysadeild með sjúkrabíl.

Lögreglan stöðvaði för bifreiðar við Miðskóga um hálftíu í gærkvöldi og er ökumaðurinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og hefur aldrei öðlast ökuréttindi.  Farþegi í bifreiðinni er grunaður um vörslu fíkniefna, segir í dagbók lögreglu.

Síðdegis í gær var bifreið stöðvuð við Gullteig. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og akstur án réttinda en hann hefur aldrei öðlast ökuréttindi.  

 Um kvöldmatarleytið var bifreið stöðvuð í Dugguvogi og er ökumaðurinn grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.

Um tíuleytið í gærkvöldi var ofurölvi maður handtekinn við Ölhúsið. Hann er vistaður í fangageymslu lögreglunnar þangað til hann verður viðræðuhæfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert