Setja aukafjármagn í bókakaup

mbl.is/Eyþór Árnason

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Félag íslenskra bókútgefenda og Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO ætla í samstarf um að vekja athygli á gildi lestrar fyrir börn og ungmenni. Markmiðið er að efla læsi barna og ungmenna og vekja áhuga þeirra á íslenskum barnabókmenntum.

Aukið verður við bókakost skólabókasafna og leikskóla á innlendum barnabókmenntum og verður veitt 7 milljóna viðbótarfjármagni til bókainnkaupa á þessu ári í samræmi við yfirlýsta áhersluþætti um að efla læsi, málþroska, lestrarfærni og lesskilning, samkvæmt fréttatilkynningu.

Bókamessa í október

Jafnframt munu útgefendur íslenskra barnabóka halda bókamessu í október þar sem stjórnendum skólasafna og leikskóla í Reykjavík gefst kostur á að kynna sér nýjar bækur, ræða við höfunda og kaupa nýútkomnar barna- og unglingabækur á góðum kjörum.

„Rannsóknir hafa sýnt að upplestur fyrir börn og þeirra eigin lestur eflir orðaforða, umskráningu og lesskilning þeirra. Því er góður bókakostur leik- og grunnskóla fyrir alla aldurshópa mikilvægur. Fram kemur í læsisstefnu leikskóla Reykjavíkurborgar, Lesið í leik, að barnabókmenntir eru mikilvægasti liðurinn í almennri málörvun barna á leikskólaaldri. Þá jafna bókmenntir tækifæri barna til náms og eru einn af grundvallarþáttum barnamenningar,“ segir í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert