Leið 6 verði stytt og tíðnin aukin

Jóhannes segir Strætó vilja halda í tenginguna á milli Grafarvogs …
Jóhannes segir Strætó vilja halda í tenginguna á milli Grafarvogs og Mosfellsbæjar, en minnka tíðni ferða. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Þetta er í samræmi við þá stefnu sem sett hefur verið, bæði að auka þjónustuna og færa okkur inn í það hvernig borgarlínan verður,“ segir Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, um tillögu Strætó bs. sem lögð var fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í vikunni, sem snýr að því að stytta leið 6 og setja á fót nýja leið 6a.

Leið 6 hefur ekið frá Hlemmi, á 15 mínútna fresti á virkum dögum, niður á Lækjartorg, fram hjá Háskóla Íslands, Miklubrautina upp í Grafarvog og þaðan upp í Háholt í Mosfellsbæ. Breytingin yrði sú að leið 6 færi á 10 mínútna tíðni og endastöðin yrði við Egilshöll. Þar tæki 6a við sem færi upp í Mosfellsbæ, en hún yrði á minni tíðni. Með nýju leiðinni yrði Helgafellshverfið í Mosfellsbæ jafnframt tengt við Grafarvoginn.

Er þetta í takt við breytingar sem gerðar voru á leið 1 á síðasta ári þegar hún var sett á 10 mínútna tíðni. „Þetta er einhvers konar hæg aðlögun í borgarlínumálum. Við töluðum þá um að setja næststærstu leiðina líka á 10 mínútna tíðni, sem er leið 6. Við höfum verið að vinna að því að finna einhverjar tillögur og þetta er ein. Að leið 6 fari á 10 mínútna tíðni og stoppi í Grafarvoginum og að tengingin upp í Mosfellsbæ, sem hingað til hefur verið leið 6, verði leið 6a á minni tíðni.“

Færri farþegar en tengingin mikilvæg

Jóhannes segir mun minni farþeganotkun frá Grafarvogi upp í Mosfellsbæ og til baka, en á hinum hlutum leiðarinnar. En tengingin sé engu að síður mikilvæg. „Þetta er gert til að halda þessari tengingu. Það er mikið tómstundastarf sem fer fram í Egilshöll og margir sækja, svo er það Borgarholtsskóli og nemendur sækja hann líka úr Mosfellsbæ. Þess vegna viljum við halda áfram tengingunni, en minnkum tíðnina.“

Enn er þó um tillögu að ræða, sem ekki kemur til framkvæmdar alveg á næstunni. „Þetta kemur ekki til framkvæmdar fyrr en tillagan er búin að fara í gegnum allt samþykktarferlið,“ segir Jóhannes. 

Tillagan fór fyrir stjórn Strætó í dag þar sem hún var samþykkt, og var hún í kjölfarið send til stjórnar samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem mun taka sína ákvörðun á næstunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert