Rottur átu fólk og fólkið át rotturnar

Yeonmi Park hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands í dag og …
Yeonmi Park hélt fyrirlestur í Háskóla Íslands í dag og var fullt út úr dyrum af fólki sem vildi hlýða á fyrirlestur hennar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Er virkilega eitthvað afgangs til að henda í þessu landi? Hugsaði ég með mér þegar ég sá fötu fulla af rusli. Það var ekkert til að henda í Norður-Kóreu. Við hentum engu. Ég hafði aldrei séð ruslafötu áður. Ég hugsaði með mér að það hlyti að vera jákvætt að það væri rusl hérna.“

Það var þetta sem fór í gegnum huga hinnar norðurkóresku Yeonmi Park þegar hún var komin til Kína, eftir að flúið hungursneyð og grimmilegar aðstæður í Norður-Kóreu, ásamt móður sinni. Þá 13 ára gömul. Þegar þær komu til Kína lentu þær í klóm mansalshrings sem hneppti þær í þrældóm. Þeim voru settir afarkostir, gátu valið um að vera neyddar í vændi og seldar í hjónaband eða að snúa aftur til Norður-Kóreu. Eftir að hafa litið í kringum sig um stund, og séð rusl, tók Park ákvörðun. Hún vildi vera áfram í Kína. Hungrið var að bera hana ofurliði. Fyrst það var hægt að henda einhverju hlytu þær mæðgurnar að geta fengið að borða.

Tíu ár eru liðin síðan þær flúðu og nú er hin 23 ára Yeonmi Park komin alla leið til Íslands. Hún hélt fyrirlestur í Hátíðarsal Háskóla Íslands fyrr dag, þar sem hún sagði frá lífinu í Norður-Kóreu. Sagði frá því hvað það var sem hún flúði og hvers vegna.

Stundar nú nám í Columbia-háskóla

Fullt var út úr dyrum í hátíðarsalnum og komust færri að en vildu. Því var brugðið á það ráð að streyma fyrirlestrinum í tvær stofur í háskólanum og beint á netið. Þegar Park steig í pontu byrjaði hún á spyrja hvort hún sæist ekki alveg. Hún væri svo lítil að hún hefði þurft sérstakan pall til að standa á svo hún næði upp í ræðupúltið, þrátt fyrir að vera á háum hælum. Hún kom gestum í salnum til að hlæja. Virtist svo lítil og nett, hálffeimin. Samt svo sterk og ákveðin. Þegar hún byrjaði að tala, segja magnaða sögu sína, þá leyndi styrkurinn sér ekki. Hún hefur þorað að segja frá. Hefur þorað að gagnrýna ógnarstjórnina í Norður-Kóreu. Þorað að segja frá því hvað hún þurfti að leggja á sig fyrir frelsið – sem hún vissi varla hvað var.

Troðfullt var í Hátíðarsal Háskóla Íslands.
Troðfullt var í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Mynd/Kristinn Ingvarsson

Tveimur árum eftir flóttann frá heimalandinu tókst þeim mæðgum að komast til Suður-Kóreu. Þá var Park með það sem samsvaraði tveggja ára grunnskólanámi á bakinu. Fjórum árum síðar var hún komin inn í einn af bestu háskólunum í Seúl, með réttargæslufræði sem aðalfag. Í dag stundar hún nám við Columbia-háskóla í New York.

Árið 2015 komu út endurminningar hennar, bókin Með lífið að veði, þar sem hún segir frá lífinu í Norður-Kóreu, flóttanum til Kína og lífinu sem tók við í kjölfarið. Í bókinni segist hún knúin áfram af sívaxandi meðvitund um hve fæðingarland hennar þurfi nauðsynlega á réttlæti að halda. Hún hefur haldið fyrirlestra víða um heim og hundruð milljónir manna hafa horft á myndbönd af henni á netinu þar sem hún segir sögu sína.

Eigum að þakka fyrir Bjarna Ben

Park sagði í fyrirlestrinum í raun erfitt að lýsa ástandinu í Norður-Kóreu fyrir þeim sem hefðu aldrei komið þangað. Hún væri stundum spurð að því hvernig hefði verið að búa þar og svaraði stundum með spurningu: „Geturðu ímyndað þér að búa á Mars?“ Það væru fá orð sem gætu lýst annarri plánetu. Sem væri eiginlega réttnefni yfir Norður-Kóreu.

Í Norður-Kóreu er leiðtoginn í guðatölu. Íbúar landsins hugsa og tala um hann þannig. Park sagði að við gætum verið þakklát fyrir að eiga forsætisráðherra eins og Bjarna Benediktsson, sem opnaði fundinn og bauð hana velkomna í pontu, í staðinn fyrir guðlegu leiðtogana sem hefðu stýrt Norður-Kóreu með harðri hendi síðustu áratugi. Hneppt þjóð sína í ánauð og kallað yfir hana hungursneyð. Þeir hafi talið íbúum landsins trú um að þeir gætu lesið hugsanir þeirra og hefðu útsendara á hverju strái. 

Hún sagði að Norður-Kóreubúum væri talin trú um að útlendingar væru óvinir landsins, en í raun hafi hún ekki þekkt til annarra landa en Kína, Japans og Rússlands og svo vissi hún um hina illu Ameríkana. „Ég hafði aldrei heyrt um Ísland og komst bara nýlega að því að það væri til,“ sagði hún kímin. Park var dugleg að slá á létta strengi þrátt fyrir að innihald fyrirlestursins væri átakanlegt.

Hún sagði að íbúum Norður-Kóreu væri jafnframt talin trú um að landið væri það besta í heimi. „Við höfðum ekkert net og bara eina sjónvarpsstöð. Ég var svo hissa þegar ég komst að því hvað það væri til mikið af alls konar tímaritum. Við höfðum bara eitt dagblað sem sagði okkur hvað allt væri frábært í landinu.“

Sjúklingarnir sprautaðir með sömu nálinni

Skömmu áður en þær mæðgurnar flúðu hafði Park legið á sjúkrahúsi. Í fyrstu hafði verið talið að hún væri með botnlangabólgu en í ljós kom að um sýkingu í meltingarfærum var að ræða. Hún var engu að síður skorin upp án deyfingar.

Park sagði sjúkrahúsin í Norður-Kóreu töluvert frábrugðin því sem við þekkjum á Vesturlöndum. Þar væru engin tæki og tól til að greina sjúkdóma. Læknarnir notist eingöngu við hendurnar við sjúkdómsgreiningar. „Læknarnir snerta þig með höndunum og segja hvað er að. Hann sagði mér að ég væri með botnlangabólgu og opnaði á mér magann án þess að gefa mér verkjalyf, en svo var þetta annars konar sýking. Á spítalanum voru allir sprautaðir með sömu nálinni. Fólk í Norður-Kóreu deyr ekki úr krabbameini eða hjartasjúkdómum, það deyr úr sýkingum áður en það gerist.“

Park sagði að það hefði ekki verið klósett innandyra á sjúkrahúsinu og hún hefði þurft að fara út til að gera þarfir sínar. Þar sá hún heilu staflana af líkum sem sjúkrahúsið hafði losað sig við. Það var reyndar ekki í fyrsta skipti sem hún sá lík liggja eins og hráviði á götum úti. Hún var vön því. „Rotturnar átu fólkið og af því við vorum svo svöng þá átum við rotturnar. Ég hugsaði með mér að ef ég myndi ekki flýja þá myndi ég deyja.“ Það var á sjúkrahúsinu sem þær mæðgur ákváðu að flýja, en eldri systir Park hafði farið á undan þeim.

Yeonmi Park heilsaði fólki og áritaði bækur eftir fyrirlesturinn.
Yeonmi Park heilsaði fólki og áritaði bækur eftir fyrirlesturinn. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Þurfti allt í einu að hafa skoðanir

Þegar þær komu til Kína eyddu þær tveimur árum með mönnum sem höfðu keypt þær. „Ég vissi að ég yrði að gera eitthvað þó að ég myndi deyja. Ég heyrði að ég yrði frjáls í Suður-Kóreu. Þar mátti vera í gallabuxum og horfa á bíómyndir. Fólk gat verið drepið fyrir að horfa á bíómyndir í Norður-Kóreu. Árið 2009 hittu þær kínverska kristniboða sem björguðu þeim og hjálpuðu að landamærum Kína og Mongólíu. Þaðan gengu þær yfir Góbí-eyðimörkina á kaldri vetrarnóttu.

Park segist hafa átt erfitt með að átta sig á því hvernig átti að vera manneskja þegar hún kom til Suður-Kóreu. Hún kunni það varla. Hún hafði aldrei mátt hafa sínar eigin skoðanir. Hún hafði aldrei haft val eða þurft að taka ákvarðanir. „Lífið í Suður-Kóreu varð erfitt. Fólk spurði mig til dæmis um uppáhaldslitinn minn og ég skildi ekki af hverju það skipti máli hvað mér fannst. Í Norður-Kóreu var mér bara sagt að uppáhaldsliturinn minn væri rauður. Litur byltingar og verkalýðsins. Svo þurfti ég allt í einu að fara að velja og bera ábyrgð á því sem ég valdi.“

Fullt var út úr dyrum í Hátíðarsal Háskóla Íslands í …
Fullt var út úr dyrum í Hátíðarsal Háskóla Íslands í dag og var fyrirlestrinum einnig streymt í tvær stofur. mbl.is/Hanna

Hún skildi heldur ekki að dýr hefðu réttindi í í Suður-Kóreu. Hundar fengu meira að segja stundum hrísgrjón að borða. Hvernig gátu dýr haft réttindi þegar mannfólkið hafði þau ekki einu sinni? „Svo eru meira að segja hundahótel hér,“ sagði hún og kom salnum aftur til að hlæja.

Samviskubit yfir að hafa aðlagast vestrænu lífi

Þrátt fyrir að létt væri yfir Park á fyrirlestrinum var stutt í tárin þegar hún talaði um samviskubitið yfir að hafa náð að flýja og aðlagast vestrænu lífi. Fjölmargir ættingjar hennar hafi orðið eftir í Norður-Kóreu og hún vissi ekkert um afdrif þeirra. Hún varð klökk þegar hún talaði um samviskubitið og skömmina sem hún fylltist stundum þegar hún hugsaði til þess hvað hún hafi þurft að gera til að öðlast betra líf. Til að öðlast frelsi.

Park lauk fyrirlestri sínum á því að segja að hún vissi ekki hvað myndi gerast í Norður-Kóreu á næstunni, en breytingar væru nauðsynlegar fyrir íbúa landsins. „Breytingin verður að eiga sér stað innan Norður-Kóreu, fólk verður að skilja að það er þrælar. Það veit það ekki núna.“

Park uppskar mikið lófaklapp þegar hún hafði lokið máli sínu en eftir fyrirlesturinn gafst gestum kostur á að spyrja spurninga.

Hefur ekki þegið sálfræðiaðstoð

Ein spurningin var hvort hún sæi fyrir sér að Norður- og Suður-Kórea gætu sameinast á ný í framtíðinni. Hún sagði það vissulega vera draum sinn. Hann hefði engu að síður dofnað eftir að hún bjó í Suður-Kóreu í fimm ár. Hún hafi orðið mjög meðvituð um hve ólík löndin væru orðin. Tungumálið væri varla það sama lengur og fjöldi hugtaka, sem notuð væru í daglegu lífi væru einfaldlega ekki til í Norður-Kóreu.

Yeonmi Park.
Yeonmi Park. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Park var líka spurð að því hvort hún hefði sótt sér sálfræðiaðstoð eftir allt sem hún hefði upplifað, en hún svaraði því neitandi. Þegar fólk talaði fyrst um slíka meðferð við hana skildi hún ekki hvað það var að fara. „Þegar ég byrjaði að skrifa bókina þá rifjaðist meira upp, en sumar minningar hafði ég alveg útilokað. Útgefandinn minn stakk upp á því að ég færi í meðferð. Ég skildi ekki af hverju, ég vissi ekki til þess að það væri neitt að mér. Ef maður lendir í áföllum þá býst fólk við að maður sé allur í flækju,“ sagði Park, sem virtist ekki kannast við að hún væri þannig. Henni liði ekki illa. „Ég hef ekki sótt meðferð, en hver veit, kannski geri ég það einhvern tíma.“

Að lokum biðlaði Park til fundargesta að gefa íbúum Norður-Kóreu smá pláss og tíma, bæði í hugsunum og gjörðum. „Ef þið hafið pláss fyrir velferð dýra, jafnrétti kynjanna og loftslagsbreytingar, þá vona ég þið hafið líka pláss fyrir fólkið í Norður-Kóreu.“

Yeonmi Park áritaði fjölmargar bækur eftir fundinn og einhverjir fengu …
Yeonmi Park áritaði fjölmargar bækur eftir fundinn og einhverjir fengu mynd af sér með henni. mbl.is/Anna Lilja
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert