Þrír morðingjar og fjórir barnaníðingar

Maðurinn sem nauðgaði stjúpdóttur sinni nær daglega frá því að hún var fimm ára þar til hún var tæplega 18 ára og fékk uppreist æru er einn fjögurra barnaníðinga sem hlotið hafa uppreist æru síðan 1995. Dómsmálaráðuneytið birti fyrr í þessum mánuði yfirlit yfir brot þeirra 32 sem hlotið hafa uppreist æru.

Fjórir þeirra sem hlutu uppreist æru voru dæmdir til fangelsisvistar undir einu ári, 14 dómar voru eins til tveggja ára langir en aðrir lengri. Flestir voru dæmdir fyrir skjalafals eða auðgunarbrot. Fíkniefna- eða ofbeldisbrot voru einnig nokkuð áberandi og hlutu samtals níu þeirra sem eru á listanum dóma fyrir slík brot eða íkveikjur, en tveir voru dæmdir fyrir það síðastnefnda. Þá hafa sex nauðgarar fengið uppreist æru og þrír morðingjar.

Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði Sigríður Andersen dómsmálaráðherra að unnið væri að breytingu á lögum um uppreist æru. Fyrr í mánuðinum kynnti hún fyrir ríkisstjórninni vinnu við frumvarp í ráðuneytinu þar sem stefnt er að því að ekki verði lengur í boði að veita uppreist æru. „Þetta verður á þingmálaskránni í haust, fyrir áramót,“ sagði Sigríður við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert