Theodóra segir af sér þingmennsku

Theodóra S. Þorsteinsdóttir ætlar að hætta á þingi og einbeita …
Theodóra S. Þorsteinsdóttir ætlar að hætta á þingi og einbeita sér að sveitarstjórnarmálunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Theodóra S. Þorsteinsdóttir, oddviti Bjartrar framtíðar í Kópavogi og þingmaður flokksins fyrir Suðvesturkjördæmi, hefur ákveðið að segja af sér þingmennsku um næstu áramót. Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við hana í Kópavogsblaðinu sem birtist í dag.

Varamaður Theodóru, Karólína Helga Símonardóttir, tekur þá sæti Theodóru á Alþingi. Sjálf segist Theodóra ætla að einbeita sér að málefnum Kópavogsbæjar og að ákvörðunin sé tekin með það í huga.

„Nú er ég búin að prófa þingið og mér finnst kraftar mínir nýtast betur á sveitarstjórnarstiginu,“ er haft eftir Theodóru sem verður búin að sitja á þingi í eitt ár er hún hættir.

„Að vinna að bæjarmálum hér í Kópavogi er mjög gefandi og umfram allt skemmtilegt. Nú er ég búin að vera í þrjú ár sem bæjarfulltrúi og er komin með mikla þekkingu á öllum sviðum stjórnsýslunnar. Okkur í Bjartri framtíð hefur gengið vel að koma áherslumálum áfram. Ég hef verið formaður bæjarráðs sem fer með eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélagsins og fjármálastjórn þess. Það hafa orðið þáttaskil í fjármálum bæjarins þar sem við erum nú laus undan eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélagsins, töluvert á undan áætlun. Rekstrarafgangur er mun meiri er gert var ráð fyrir í áætlunum og við teljum okkur vera að gera vel.“

Þingið meira eins  og málstofa

Spurð hvort hún sé komin í kosningagírinn fyrir næstu sveitastjórnarkosningar segist hún ekki mikið vera farinn að spá í vorið, en að hún vilji þó gefa kost á sér sem oddviti Bjartrar framtíðar í Kópavogi fyrir næsta kjörtímabil. „Þeir sem þekkja mig vita að um leið og bæjarmálin hér í Kópavogi er nefnd þá fer ég flug. Bæði vegna þess að ég er stolt af verkum mínum hér en einnig vegna þess að ég hef mjög mikinn áhuga á því sem ég er að gera. Hins vegar þá er galli minn sem pólitíkus sá að ég er ekki góð í að koma því á framfæri sem við erum að gera.“

Theodóra segir þingstörfin hafa komið sér á óvart. Þau „snúast ekki, ólíkt störfum í sveitarfélaginu, um stefnumótun og framkvæmd verkefna. Þau eru meira eins og málstofa. Flest mál sem samþykkt eru koma úr ráðuneytum í gegnum ríkisstjórn. Við þingmenn höfum svo það hlutverk að fjalla um þau en komum hvergi að neinni stefnumótun eða ákvarðanatöku um strauma og stefnur. Reyndar geta þingmenn óskað umræðu um allt á milli himins og jarðar. Oft er sú umræða á flokkspólitískum nótum, sett upp til að berja sér á brjóst eða berja á pólitískum andstæðingum. Það hentar mér ekki enda leiða þær sjaldnast til nokkurrar niðurstöðu.“

Samið í þinglok um að hver flokkur fái eitt þingmannamál samþykkt

Þingmenn geti vissulega lagt fram alls kyns mál að eigin frumkvæði, en að sínu mati sé það ekki mjög vænlegt til árangurs. „Mér sýnist samið um það í þinglok að hver flokkur fái eitt þingmannamál samþykkt. Það fer því mest allur tími þingsins í umræður og framlagningu mála sem allir vita að fást líklega ekki samþykkt. Ég varð í raun mjög hissa á því hvað þingið er óskilvirkt. Ég vil frekar vinna með fulltrúum fleiri aðila að því að finna lausnir á þeim verkefnum sem blasa við, eins og við gerum í Kópavogi þar sem við reynum að vinna hlutina í sem mestri sátt við íbúa og í þverpólitískri sátt. Ég sé það því miður ekki gerast í þinginu á næstu misserum. Þar er of langt í land með þessa menningu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert