Fannst blautur og kaldur

Björgunarsveitarmenn á Fimmvörðuhálsi.
Björgunarsveitarmenn á Fimmvörðuhálsi. Ljósmynd/Aðsend

Björgunarsveitarmenn fundu manninn sem var villtur á Fimmvörðuhálsi um klukkan hálfþrjú í dag. Hann var kaldur og blautur eftir að hafa verið þar um nóttina.

Maðurinn er frá Ungverjalandi og er á fimmtugsaldri. 

Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg segir að svo virðist sem maðurinn hafi villst af leið. Hann var staddur rúman kílómetra frá stikuðu gönguleiðinni í bröttu gili.

Hann er nú kominn upp úr gilinu og fylgja björgunarsveitarmenn honum til byggða.

Í erfiðum aðstæðum

Að sögn Margrétar Ýrar Sigurgeirsdóttur, svæðisstjóra hjá Landsbjörg, var maðurinn með tvo síma og var rafhlaðan búin á öðrum þeirra.

„Hann var í frekar erfiðum aðstæðum ofan í gili. Það þurfti að hjálpa honum upp með fjallabjörgunarbúnaði,“ segir hún.

Frá vettvangi.
Frá vettvangi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert