Síðsumarshressing eftir heyskapinn

Feðginin eru samrýnd. Hér bregða þau á leik eftir hlaup.
Feðginin eru samrýnd. Hér bregða þau á leik eftir hlaup.

Feðginin Eyþór Árnason og Sólveig Vaka Eyþórsdóttir leggja upp í tónleikaferð í dag. Ferðalagið nefnist Síðsumarsferð með fiðlu og ljóð og munu þau ferðast landshorna á milli. Sólveig Vaka leikur á fiðlu og Eyþór les inn á milli eigin ljóð.

Þetta er í fyrsta skipti sem þau feðgin fara saman í tónleikaferðalag og segist Eyþór vera farinn að hlakka mikið til.

„Sólveig Vaka dóttir mín sér alfarið um tónlistina, ég er bara baktjaldamaður í tónlist,“ segir ljóðskáldið Eyþór Árnason. Hann leggur, ásamt dóttur sinni Sólveigu Vöku, upp í hringferð um landið sem hefst í dag og ber heitið Síðsumarsferð með fiðlu og ljóð. Þar munu þau feðgin leiða saman hesta sína á nokkrum stöðum víðs vegar á næstu dögum. Sólveig Vaka leikur fyrir gesti verk eftir Johann Sebastian Bach, Hróðmar Inga Sigurbjörnsson og Friðrik Margrétar-Guðmundsson, en sá síðastnefndi samdi verkið fyrir Vöku.
Eyþór og Vaka saman á góðri stund í sumarfríi á …
Eyþór og Vaka saman á góðri stund í sumarfríi á Ítalíu þegar Vaka var fimm ára. Þau hafa margt brallað saman í gegnum tíðina.


Eyþór les nokkur af ljóðum sínum en hann hefur gefið út fjórar ljóðabækur. Sú fyrsta, Hundgá úr annarri sveit, kom út árið 2009 og hlaut Eyþór Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir þá bók. Sú næsta kom út 2011 og nefndist Svo ég komi aftur að ágústmyrkrinu. Sú þriðja, Norður, kom út 2015 og fjórða og síðasta, Ég sef ekki í draumheldum náttfötum, kom út árið 2016 og var nýverið tilnefnd til Maístjörnunnar sem besta ljóðabók ársins.

Gott að prófa ný ljóð á saklausum áheyrendum

En hvernig skyldi þeim feðginum hafa dottið í hug að halda tónleika saman?

„Hugmyndin kom frá Sólveigu Vöku, henni datt þetta í hug. Ég samþykkti bara þegar hún bar þá hugmynd undir mig að við skelltum okkur í hringferð um landið,“ svarar Eyþór. Hann segist ekki hafa hugsað mikið út í umfang hugmyndarinnar þegar hana bar fyrst á góma.

Sólveig Vaka mundar hér fiðluna en hún leggur stund á …
Sólveig Vaka mundar hér fiðluna en hún leggur stund á tónlistarnám í Þýskalandi. Ljósmynd/Antje Taiga Jandrig


„Ég sagði bara já og var ekkert að stressa mig á þessu. En svo þegar þetta fór að nálgast fór ég aðeins að leiða hugann að því. Þá tók alvaran við, sjáðu til.“

Að sögn Eyþórs er Sólveig Vaka í bachelor-námi í tónlistarháskólanum í Leipzig í Þýskalandi og gengur vel. Skólinn sem um ræðir heitir Hochschule für Musik und Theater – Felix Mendelssohn-Bartholdy og er elsti tónlistarskólinn í Þýskalandi, stofnaður 1843.

Eyþór segist spenntur fyrir komandi tónleikum og lofar góðri skemmtun.

„Ferðalagið okkar hefst í dag. Sólveig Vaka kom til landsins frá Þýskalandi núna á laugardaginn svo við náðum að æfa okkur svolítið í gær. Þetta verður virkilega fróðlegt og skemmtilegt.“

Eyþór Árnason
Eyþór Árnason Ljósmyndir/Hrefna Björg Gylfadóttir


Eins og áður hefur komið fram hefur Eyþór gefið út fjórar ljóðabækur og mun hann lesa upp úr þeim öllum. Spurður um frekara fyrirkomulag á tónleikunum segir Eyþór þetta vera mikla samvinnu þeirra feðgina.

„Hún spilar og ég les á milli, við höfum þetta svolítið á víxl. Þetta eru semsagt ljóð eftir mig sem ég mun lesa, ég mun grauta eitthvað í flestum bókunum sem ég hef gefið út. Þetta verður svolítið hingað og þangað, planið er að byrja á fyrstu bókinni og enda á þeirri síðustu, og svo verða einhverjir útúrdúrar inn á milli svo Vaka fái ekki leið á því að heyra alltaf sömu ljóðin á öllum stöðunum,“ segir Eyþór og hlær.

Spurður hvort áheyrendur megi eiga von á einhverju nýju stendur ekki á svarinu.

Sólveig Vaka Eyþórsdóttir
Sólveig Vaka Eyþórsdóttir


„Kannski verð ég með eitthvað nýtt inn á milli sem hefur ekki heyrst áður, það er aldrei að vita. Það er gott að prófa það á saklausum áheyrendum og sjá hvernig það virkar. Þetta er fínn vettvangur í það.“

Spurður hvar fólk geti nálgast miða á tónleikana segir Eyþór að slíkt þurfi ekki.

„Þetta er algjörlega ókeypis og verður vonandi nóg pláss fyrir alla. Við höfum nú svosem ekki miklar áhyggjur af plássleysi en það eru að sjálfsögðu allir velkomnir.“

Síðsumarshressing áður en göngur byrja

Eyþór ólst upp í hinu mikla sveitahéraði Skagafirði og þrátt fyrir að hafa verið búsettur í höfuðborginni um árabil er alltaf stutt í sveitamanninn í honum.

„Þetta er afar hentugur tími til að leggjast í svona tónleikaferðalag. Það má kannski líta á þetta sem síðsumarshressingu þegar menn klára að heyja og svona áður en göngur byrja. Þetta er fínn tími akkúrat þar á milli,“ segir Eyþór að lokum.

Dagskrá tónleikanna

» 28. ág. Strandarkirkja í Selvogi kl. 20.00

» 29. ág. Þingvallakirkja kl. 20.00

» 30. ág. Hafnarkirkja, Höfn í Hornafirði kl. 20.00

» 31. ág. Eskifjarðarkirkja kl. 20.00

» 1. sept. Einarsstaðakirkja, Reykjadal, S-Þing. kl. 20.00

» 2. sept. Lögmannshlíðarkirkja, Akureyri kl. 20.00

» 3. sept. Miklabæjarkirkja, Skagafirði kl. 16.00

» 4. sept. Hóladómkirkja í Hjaltadal kl. 20.00

» 5. sept. Þingeyrakirkja, Húnaþingi kl. 20.00

» 6. sept. Vatnasafnið, Stykkishólmi kl. 20.00

» 8. sept. Kirkja Óháða safnarins í Reykjavík kl. 20.00

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert