Skattbyrði aukist mest hjá tekjulægstu

mbl.is/Ómar

Skattbyrði hefur aukist í öllum tekjuhópum á tímabilinu frá 1998 til 2016 og mest hjá þeim tekjulægstu.

Þetta kemur fram í skýrslu hagdeildar ASÍ um skattbyrði launafólks á árunum 1998 til 2016.

Meginástæðurnar fyrir aukinni skattbyrði eru, samkvæmt skýrslunni, þær að persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun sem hefur aukið skattbyrði lægri launa mest.

Stuðningur vaxtabótakerfisins hefur jafnframt minnkað verulega vegna þess að bótafjárhæðir og skerðingarmörk hafa ekki hækkað í takt við laun og fasteignaverð og það sama á við um stuðning við leigjendur.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Eggert

Skattbyrði aukist um 52 prósentustig

Samkvæmt skýrslunni hefur skattbyrði hjá tekjulægstu barnafjölskyldunum aukist um 52 prósentustustig, um 28 prósentustig við neðri fjórðungsmörk og um 20 og 14 prósentustig hjá launafólki við miðgildi launa og efri fjórðungsmörk. 

Skattbyrði para á lágmarkslaunum með tvö börn og lágmarks eigið fé í húsnæði (20%) hefur aukist um 21 prósentustig á umræddu tímabili.

Skattbyrði hjá pörum í sömu stöðu með laun við neðri fjórðungsmörk hefur aukist um 14 prósentustig en við miðgildi launa er aukningin 9 prósentustig og við efri fjórðungsmörk 5 prósentustig.

Munur á skattbyrði tekjulægstu og tekjuhærri minnkað

Skattbyrði einstæðra foreldra í sömu stöðu hefur aukist enn meira á tímabilinu og mest hjá þeim tekjulægstu. Munurinn á skattbyrði tekjulægstu hópanna og þeirra tekjuhærri hefur því minnkað og dregið hefur úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins. Kaupmáttaraukning síðustu ára hefur þannig skilað sér síður til launafólks með lægri tekjur en þeirra tekjuhærri vegna vaxandi skattbyrði. 

„Íslenska barnabótakerfið er veikt og dregur eingöngu úr skattbyrði einstæðra foreldra og allra tekjulægstu para. Á tímabilinu hefur barnabótakerfið veikst enn frekar því bótafjárhæðir hafa rýrnað að raungildi og tekjuskerðingar aukist. Saman tekið hefur því dregið úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins,“ segir í helstu niðurstöðum skýrslunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert