Stal bakpoka undir þýfið

mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók karlmann um klukkan hálffjögur síðdegis eftir að hann var staðinn að þjófnaði úr tveimur verslunum. Hann hafði stolið vörum úr einni verslun og fór svo yfir í aðra þar sem hann stal bakpoka til að setja þýfið í. Maðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar segir jafnframt að um klukkan hálftvö hafi verið höfð afskipti af ökumanni vegna hraðaksturs. Bifreið hans hafði verið mæld á 115 km/klst. á vegarkafla sem hámarkshraði er leyfður 80 km/klst. Ökumaðurinn er einnig grunaður um ölvun við akstur. Hann var látinn laus að lokinni sýnatöku.

Þá var annar ökumaður stöðvaður rétt fyrir tvö grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Var hann látinn laus að lokinni sýnatöku, en hann reyndist einnig vera sviptur ökuréttindum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert