Grunur um mansal á Akureyri

Grunur er um mansal á veitingastaðnum Sjanghæ á Akureyri.
Grunur er um mansal á veitingastaðnum Sjanghæ á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Grunur leikur á því að eigandi kínversks veitingastaðar á Akureyri stundi vinnumansal. Frá þessu var greint í kvöldfréttum RÚV. Formaður stéttarfélags á Akureyri staðfesti í samtali við mbl.is að eftirlitsmenn félagsins væru staddir á veitingastaðnum til að kanna aðstæður. 

Fram kom í fréttum RÚV að grunur leiki á því að starfsfólk veitingastaðarins Sjanghæ fái greiddar þrjátíu þúsund krónur á mánuði í laun og borði matarafganga af veitingastaðnum. Starfsmönnunum, sem eru fimm Kínverjar, hafi verið lofað góðri atvinnu og framtíðarbúsetu hér á landi gegn því að greiða háa fjárhæð fyrir.

Björn Snæbjörnsson, formaður stéttarfélagsins Einingar Iðju á Akureyri, segir í samtali við mbl.is að starfsfólk stéttarfélagsins sé nú á staðnum ásamt kínverskum túlki að ræða við starfsfólkið. Þá sé einnig verið að skoða aðstæður.

Eru þetta margar ábendingar sem hafa borist? „Nóg til þess að við erum að skoða þessa hluti,“ segir Björn.

Í frétt RÚV segir að staðurinn hafi verið opnaður í september en fyrsta ábending hafi borist fyrir opnunina. Þar segir jafnframt að lögreglan á Norðurlandi eystra sé nú komin með málið inn á borð til sín ásamt mansalsteymi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert