Matvælastofnun fann leifar af fipronil

Egg rannsökuð á efnarannsóknarstofu í Münster í Þýskalandi.
Egg rannsökuð á efnarannsóknarstofu í Münster í Þýskalandi. AFP

Innflutningseftirlit Matvælastofnunar fann leifar af efninu fipronil í eggjarauðudufti frá Ítalíu í mælingum sínum.

Duftið var ætlað til notkunar við framleiðslu á tilteknum vörum hjá Ora. Í samræmi við gæðakerfi fyrirtækisins var allri notkun eggjarauðuduftsins hætt þegar í stað og hafa vörur sem innihalda hið mengaða hráefni verið innkallaðar, að því er kemur fram í tilkynningu frá Ísam.

„Rétt er að taka fram að magn efnisins var mjög lítið og ekki skaðlegt neytendum. Tekin voru tvö sýni og var magn fipronil í öðru vel undir leyfilegum viðmiðunarmörkum en rétt yfir mörkum í hinu sýninu,“ segir í tilkynningunni.

„Samkvæmt gæðakerfi Ora er notkun hráefnis hætt í slíkum tilvikum til að tryggja öryggi afurða, jafnvel þótt mælingar séu undir viðmiðunarmörkum. Jafnframt verður farið fram á að erlendir söluaðilar eggjarauðudufts staðfesti með vottorði óháðra eftirlitsaðila að hráefnið sem Ora kaupir fyrir sína framleiðslu sé algjörlega laust við umrætt efni.“

Fipronil er notað til aflúsunar á dýrum, meðal annars gæludýrum. Óheimilt er að nota það á dýr sem ræktuð eru til manneldis eða framleiðslu afurða til manneldis.

Þess vegna á efnið ekki að geta komist inn í fæðukeðjuna með þessum hætti sé rétt að málum staðið.

Í meðfylgjandi töflu má sjá lista yfir vörur sem hafa verið í almennri dreifingu í verslunum og eru í innköllun. Hafi fólk þessar vörur undir höndum með þeim lotunúmerum sem um ræðir óskar Ísam vinsamlegast efir því að þeim verði skilað í næstu verslun sem selur vöruna þar sem hún verður jafnframt endurgreidd.

mbl
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert