United Silicon bað um lengri frest

„Þetta snýst um skerðingu lífsgæða,“ sagði Elva Sif Gretarsdóttir, sem …
„Þetta snýst um skerðingu lífsgæða,“ sagði Elva Sif Gretarsdóttir, sem býr í nágrenni kísilvers United Silicon, í samtali við mbl.is í síðustu viku. Hún segist hika við að setja unga dóttur sína, Bríeti Erlu, út í vagn að sofa. mbl.is/Rax

Stjórnendur kílsvers United Silicon í Helguvík fóru fram á það við Umhverfisstofnun að athugasemdafrestur vegna áforma um stöðvun starfseminnar yrði framlengdur um viku en hann átti að renna út í dag. Á það féllst stofnunin ekki en fallist var á að framlengja frestinn um sólarhring eða til 31. ágúst. Stefnt er að því að taka ákvörðun um stöðvunina fyrir vikulok.

Umhverfisstofnun tilkynnti United Silicon í síðustu viku að hún áformaði að stöðva starfsemi kísilversins ef annaðhvort afl ljósbogaofns verksmiðjunnar færi niður fyrir 10 MW eða stöðvaðist í klukkustund eða meira, þó eigi síðar en 10. september. Ekki yrði þá heimilt að endurræsa ofninn nema með skriflegri heimild að loknum endurbótum og mati á þeim.

Var United Silicon gefinn kostur á að gera athugasemdir við þessi áform til dagsins í dag, 30. ágúst, og hefur sá frestur nú verið framlengdur um sólarhring.

200 kvartanir síðan á laugardag

Slökkt var á ljósbogaofninum, sem nefndur var Ísabella við gangsetningu verksmiðjunnar, á laugardag eftir að heitur kísill flæddi út á gólf. Ítrekað hefur þurft að slökkva á ofninum frá því verksmiðjan hóf starfsemi í nóvember á síðasta ári. 

Og enn er slökkt á Ísabellu. Íbúar í nágrenni verksmiðjunnar og víðar í Reykjanesbæ hafa frá því á laugardag kvartað ítrekað til Umhverfisstofnunar um mengun frá henni. Alls hafa borist um 200 kvartanir, flestar í gær. Íbúar kvarta undan ýmsum líkamlegum einkennum, s.s. ertingu í öndunarfærum og þurrki og roða í augum. „Ég var virkilega slæm í gær,“ skrifar einn íbúi á Facebook-síðu þar sem fólk deilir upplýsingum um líðan sína. „En það sem braut hjarta mitt var að þriggja ára sonur minn var sífellt að ræskja sig.“

Fleiri segja svipaða sögu. „Hausverkurinn alveg að gera út af við mig núna,“ segir einn og annar tekur í sama streng. „Ég er einmitt búin að vera með þennan ömurlega hausverk.“

Sumir segjast enga lykt finna, líkt og margir íbúar lýsa, en segjast þó finna fyrir líkamlegum einkennum. Einn íbúi lýsir því að hann hafi í nokkra mánuði verið með rauð augu og mikinn sviða. Annar segir: „Ég hef einmitt aldrei fundið lykt þar sem ég bý [...] en hef vaknað með þurran og auman háls og rauð augu.“ Mæðgur lýsa svo svipuðum einkennum. Athugasemdirnar skipta tugum.

Fylgni milli kvartana og reksturs ofnsins

Enn hefur ekki verið staðfest hvaða efni gætu leynst í loftinu sem valda þeim einkennum sem íbúarnir kvarta yfir. Norsk loftgæðastofnun, NILU, tók sýni fyrir nokkrum vikum, m.a. með tilliti til mögulegra snefilefna sem myndast er ofninn er ekki keyrður á fullu afli. Niðurstöðurnar eiga að berast fyrir mánaðamót. 

Umhverfisstofnun segir mikla fylgni á milli fjölda kvartana og starfsemi ofnsins. Þegar slökkt er á honum og í nokkra daga á eftir fjölgar kvörtunum og einnig þegar hann er keyrður upp að nýju en bæði þessi ferli geta tekið nokkra daga. 

Ljósbogaofn United Silicon í Helguvík er m.a. kyntur með viðarflísum …
Ljósbogaofn United Silicon í Helguvík er m.a. kyntur með viðarflísum og kolum. Stórar stæður af viðarflísum eru fyrir utan verksmiðjuna. mbl.is/Rax

Kristleifur Andrésson, upplýsingafulltrúi United Silicon, sagði í samtali við mbl.is í dag að ekki yrði kveikt á ofninum í dag. Enn sé unnið að viðgerð eftir bilun á laugardag. Hann segir ekki tímabært að svara því hvenær kynding ofnsins hefst að nýju.

Snefilefni verða til

Ljósbogaofninn Ísabella er m.a. kyntur með kolum og viðarflísum. Við bruna slíks jarðefnaeldsneytis myndast fjöldi efnasambanda. Við kjörhitastig ofnsins, sem er um 1900°C, myndast nær eingöngu þau efni sem oft eru kölluð hin hefðbundnu mengunarefni, s.s. svifryk, koldíoxíð og brennisteinsdíoxíð. Hins vegar hefur ofninn ítrekað verið á minna afli, þ.e. lægri hita, og þá getur myndun snefilmengunarefna margfaldast. Þau efni geta til dæmis verið ediksýra, maurasýra og ýmis aldehýð. Sum þeirra geta valdið ertingu þó að styrkur þeirra sé mjög lágur. 

„Íbúar í Reykjanesbæ sem hafa haft samband við Umhverfisstofnun hafa meðal annars lýst sviða í nefholi og hálsi, óþægindum við öndun, auknum astma-einkennum, herpingi í hálsi og sviða í augum,“ segir í bréfi sem Umhverfisstofnun sendi Skipulagsstofnun fyrr á árinu. „Þessi einkenni eru að hluta til þau sömu og lýst er sem mögulegum einkennum frá t.d. ediksýru, maurasýru og aldehýðum.“

Snefilefnin eru hins vegar ekki mæld í reglubundnum mælingum, aðeins hin „hefðbundnu mengunarefni“. Því var frekari rannsókna þörf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert