Vilja bæta geðheilbrigðismál

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra á leið á ríkisstjórnarfund í dag.
Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra á leið á ríkisstjórnarfund í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er eitt af því sem er einlægur vilji okkar að bæta,“ segir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra, spurður um það hvort veita eigi aukna fjármuni til geðheilbrigðismála í næstu fjárlögum, sem kynnt verða þegar Alþingi kemur saman um miðjan næsta mánuð.

Bendir hann á að gert sé ráð fyrir því bæði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og í fjármálaáætlun sem Alþingi samþykkti í vor að styrkja sálfræðiþjónustu í skólum og á heilsugæslustöðvum. „Við reynum að bæta úr þessu eins og við mögulega getum,“ segir Benedikt.

Geðheilbrigðismál hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu, en eins og greint hefur verið frá hafa tveir ungir menn svipt sig lífi á geðdeild Landspítalans á síðustu vikum.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra sagði í samtali við mbl.is fyrr í mánuðinum að þegar hefði tekist að fjölga sálfræðingum í heilsugæslunni og þar af leiðandi sálfræðiþjónustu í heilbrigðiskerfinu. Aukningin hafi verið umfram það sem gert var ráð fyrir í geðheilbrigðisáætlun sem samþykkt var á Alþingi í fyrra.

Frétt mbl.is: Sálfræðingum á heilsugæslum fjölgað

Boðar meiri stöðugleika

Fjárlagafrumvarpið sem birt verður í næsta mánuði er fyrsta fjárlagafrumvarp Benedikts, en hann segir það eiga sér góða hliðstæðu í fjármálaáætluninni. Fjármálaáætlunin er sett til fimm ára en uppfærð á hverju ári miðað við stöðuna hverju sinni. Var hún samþykkt með 32 atkvæðum gegn 31 í lok maí sl.

Benedikt hefur boðað meiri stöðugleika með því að birta þriggja ára áætlun um framlög til allra stofnana.

„Nýjungin og það sem mér finnst mest spennandi er að við verðum með þessa sundurliðun til þriggja ára um áætlun á einstakar stofnanir og fjárveitingar til þeirra,“ segir Benedikt. „Þetta mun vonandi gefa betri vissu um hvert við stefnum og auðveldar við framlagningu næstu fjármálaáætlunar sem ég mun leggja fram í vor, að sjá hvaða hugsun ligur að baki og ef breytingar eru gerðar þá hvar.“

Bendir Benedikt á að þetta sé gert samkvæmt lögum um opinber fjármál, og þó að þetta sé gert nú í fyrsta sinn séu þetta engin nýmæli. „Ég lít svo á að þetta sé góð breyting og þetta er eftir lögunum,“ segir Benedikt. „Ég held að fjárlagafrumvarpið sjálft sé alltaf að verða minna og minna spennandi því það er búið að segja fyrir fram sirka hvernig það verður.“

Spurður um stærstu málin sem nú liggja fyrir nefnir Benedikt kjaramálin og vanda sauðfjárbænda. „Það eru málefni sem við erum að fást við akkúrat núna en ég veit ekki hvort þau muni endast fram á haust. Kjaramálin gera það eflaust en vonandi finnst lausn á vanda sauðfjárbænda fljótlega.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert