Vilja breyta lögum strax

Andrés Ingi Jónsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir á fundi nefndarinnar …
Andrés Ingi Jónsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir á fundi nefndarinnar í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og Pírata hafa í hyggju að leggja fram frumvarp þess efnis að gerðar verði ákveðnar lagabreytingar í tengslum við uppreist æru áður en boðað frumvarp dómsmálaráðherra í þeim efnum kemur inn í þingið.

Þetta kom fram á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis í morgun þar sem rætt var um uppreist æru. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði að til stæði að leggja fram frumvarp þar sem kveðið verði á um að einstaklingum sem hlotið hafi dóma vegna kynferðisbrota gegn börnum verði ekki heimilt að starfa sem lögmenn.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður VG, sagði að sama skapi að hann hefði sett í gang vinnu við smíði frumvarps að lagabreytingum sem sneru að tímabundinni breytingu á lögum þannig að skýr heimild væri til handa ráðuneytinu til þess að hætta afgreiðslu umsókna um uppreist æru á meðan heildarendurskoðun á lögum sem tengjast því ferli fari fram.

Boðuðu frumvarpi dómsmálaráðherra er ætlað að afnema heimild í lögum til þess að veita uppreist æru og gera ennfremur nauðsynlegar breytingar á lögum þar sem óflekkað mannorð er gert að skilyrði meðal annars fyrir veitingu ákveðinna embætta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert