Flugvirkjar funda með atvinnurekendum

Samningar flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni eru að losna.
Samningar flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni eru að losna. mbl.is/Árni Sæberg

Samningar Flugvirkjafélags Íslands við Icelandair og fleiri aðila renna út í dag. Að sögn Óskars Einarssonar, formanns félagsins, hafa nokkrir fundir átt sér stað með stærstu atvinnurekendum en engir með samninganefnd ríkisins.

Auk Icelandair eru samningar meðal annars að losna við flugvirkja hjá Air Iceland Connect, Air Atlanta og Landhelgisgæslunni.

Flugvirkjar hjá Samgöngustofu eru aftur á móti ekki með lausa samninga. Þeir gerðu kjarasamning í byrjun febrúar í fyrra eftir að hafa farið í verkfall. Þeirri deilu var vísað til ríkissáttasemjara.

Elísabet Ólafsdóttir gerir fundarborð klárt í húsi ríkissáttasemjara.
Elísabet Ólafsdóttir gerir fundarborð klárt í húsi ríkissáttasemjara. mbl.is/Eggert

Engum viðræðum vísað til ríkissáttasemjara

Elísabet Ólafsdóttir, skrifstofustjóri ríkissáttasemjara, segir að engum þeirra 29 samninga sem áttu að renna út í dag hafi verið vísað til þeirra.

Kjarasamningur Skurðlæknafélags Íslands átti að losna í dag en nýr samningur félagins var undirritaður við samninganefnd ríkisins í gær.

Þá hefur samninganefnd ríkisins boðað fundi á næstu dögum með einhverjum sautján aðildarfélaga BHM. Úrskurður gerðardóms um kaup og kjör félagsmanna þeirra fellur úr gildi í dag.

Samninganefnd Flugvirkjafélags Íslands hefur fundað með Icelandair. Samningur Félags íslenskra …
Samninganefnd Flugvirkjafélags Íslands hefur fundað með Icelandair. Samningur Félags íslenskra atvinnuflugmanna rennur út í haust. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Flugmenn og kennarar í haust

Síðar í haust renna út fimm samningar Félags íslenskra atvinnuflugmanna, kjarasamningur Félags framhaldsskólakennara við ríkið og kjarasamningur Félags grunnskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Næsta stóra samningalota verður svo við lok árs 2018 þegar 78 kjarasamningar losna. Fljótlega þar á eftir, eða 31. mars 2019, renna út 146 kjarasamningar, að því er kemur fram á vef ríkissáttasemjara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert