„Hver vill ekki eignast Benz?“

Haraldur Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins, afhenti Ingveldi Thorarensen lykla að nýju …
Haraldur Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins, afhenti Ingveldi Thorarensen lykla að nýju bifreiðinni í bílaumboðinu Öskju í dag mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Þetta er alveg dásamlegt. Hver vill ekki eignast Benz?“ sagði Ingveldur Thorarensen, bókmenntafræðingur úr Hafnarfirði, þegar hún tók hæstánægð við spánýrri Mercedez-Benz B-250e-rafbifreið nú síðdegis. Ingveldur var dregin út úr áskrifendahappdrætti Morgunblaðsins og Öskju í beinni útsendingu á útvarpsstöðinni K100. 

Ingveldur starfar á leikskólanum Hvammi í Hafnarfirði, en það tók hana nokkurn tíma að átta sig á fregnunum sem Haraldur Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins, færði henni í símtali í morgun. „Ég kannaðist við númerið því ég og börnin mín bárum blaðið út í mörg ár. Því fannst mér ólíklegt að einhver væri að gera at,“ sagði hún, en hún hefur einnig verið áskrifandi að Morgunblaðinu um árabil. „Svo flutti pabbi minn í kjallarann hjá okkur og bjó í fimmtán ár. Hann var með áskrift, þannig að við létum hana duga. Þegar hann féll frá var ekki séns að ég segði Mogganum upp, ég vildi sko lesa minn Mogga!“ sagði Ingveldur og hló.

„Ég trúði varla mínum eigin eyrum og við á leikskólanum biðum í ofvæni eftir því að þetta birtist á mbl.is, ég vildi vera alveg viss. Nú eru allir á leikskólanum búnir að heimta bíltúr!“ sagði hún.

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Mikill umhverfissinni

Ingveldur kveðst mikill umhverfissinni og það eigi því vel við að Benz-bifreiðin sé aldrifin rafmagni. Hún segir að það hafi vel komið til greina að festa kaup á rafmagnsbifreið þegar hún myndi næst skipta um bíl. Hún segist einnig mikill bílaáhugamaður og Mercedes Benz sé hátt skrifaður í sínum huga.

Mercedes-Benz B-250e er fyrsta bifreiðin sem Mercedes-Benz framleiðir sem er algerlega knúinn rafmagni. Akstursdrægi hans er rúmir 230 kílómetrar og er hann ríkulega hlaðinn staðalbúnaði á borð við árekstrarvara sem er hannaður til að koma í veg fyrir aftanákeyrslu.

Mercedes-Benz hyggst setja á markað níu hreina rafbíla fyrir árið 2022, en í fyrrahaust kynnti fyrirtækið nýtt vörumerki, rafbílalínuna EQ. Móðurfélag fyrirtækisins, Daimler, hóf í maí byggingu einnar stærstu rafhlöðuverksmiðju í Evrópu til að standa undir framleiðslu rafhlaðna í umrædda bíla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert