Segja útflutningsskyldu leið úr vandanum

Bændur ræða sín á milli fyrir utan félagsheimilið í Blönduósi …
Bændur ræða sín á milli fyrir utan félagsheimilið í Blönduósi í gær. Á þriðja hundrað sóttu fundinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alvarleg staða er nú komin upp í sauðfjárrækt. Framleiðslustyrkir í sauðfjárrækt hafa leitt til offramleiðslu á lambakjöti og verður framleiðslan í ár nálægt tíu þúsund tonnum. Innanlandsmarkaður neytir um 6.500 tonnum af lambakjöti árlega og eðlilegur útflutningur á ársgrundvelli er áætlaður 1.500 tonn. Út af standa tvö þúsund tonn og nú spyrja bændur: Hvað skal gert við umframbirgðirnar?

Offramleiðslan hefur þegar leitt til offramboðs á innlendum mörkuðum með tilheyrandi verðlækkunum í verslunum, þó svo að aukaframboðið sé aðeins brot af öllu umframmagninu. Rekstur sláturhúsa hefur gengið brösuglega á undanförnum árum og kemur verðhrunið illa við sláturleyfishafana. Sláturhúsin skáru niður greiðslur til bænda á síðasta ári vegna lágra verða innanlands og í útflutningi en eftir þrjú samfelld ár af taprekstri gripu þau til þess örþrifaráðs að skera greiðslur til bænda niður um 35 prósent á hvern skrokk þetta haustið.

Bændur eru byrjaðir að bæta við sig aukavinnu til þess að ná endum saman og hefur bændaforystan þungar áhyggjur af þeim yngstu og skuldsettustu. Staðan hafi áður verið þröng en tekjuskerðingin geti ýtt mörgum fram af brúninni. Landbúnaðarráðherra hefur viðrað hugmyndir um styrki til sauðfjárbænda, ekki síst þeirra sem vilja draga úr framleiðslu eða hætta sauðfjárrækt til þess að draga úr offramleiðslu til framtíðar, en birgðavandinn stendur eftir. Sá vandi sem blasir við bændastéttinni í dag.

Sauðfjárbændur sem mættu til fundarins í gær vilja meiri árangur …
Sauðfjárbændur sem mættu til fundarins í gær vilja meiri árangur í sölu- og markaðsmálum á íslenska lambakjötinu. Eggert Jóhannesson

Hvað er til bragðs?

Það afurðaverð sem bændum hefur verið boðið núna er svokallað byrjunarverð. Sláturleyfishafar hafa þannig heitið því að greiða bændum hærra verð takist þeim að markaðssetja og selja kjötið á háu verði. Í því sambandi er fyrst og fremst horft til erlendra markaða til að forða innlendum markaði frá verðhruni í öðrum kjötafurðum. Sagan sýnir að við offramboð og verðlækkanir á einni tegund kjöts svari aðrar búgreinar í sömu mynt og lækki verð. Yrði það til þess að dreifa tapinu yfir á fleiri búgreinar á sama tíma og verð á lambakjöti færi undir kostnaðarverð.

Sláturleyfishafar hafa farið þess á leitir við stjórnvöld að komið verði aftur á útflutningsskyldu sem þvingar öll sláturhús til að flytja hluta framleiðslu sinnar til útlanda. Markaðir eru á Spáni, Bretlandi, Svíþjóð, Japan, Bandaríkjunum og jafnvel Rússlandi fyrir íslenskt lambakjöt en með útflutningsskyldunni er öllum gert að flytja jafnt hlutfall út og þannig komið í veg fyrir valkreppu fangans þar sem hluti sláturleyfishafa flytur út afurðir sínar á lægra verði en fæst á innanlandsmarkaði á meðan aðrir koma öllu sínu inn á innanlandsmarkað fyrir hærra verð.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, landbúnaðarráðherra, hefur þó aftekið þessar hugmyndir í fjölmiðlum. Hún er mótfallin svo viðamiklu markaðsinngripi og hefur heldur einblint á hinn enda vandans, að draga úr framleiðslunni. Bændaforystan hefur tekið undir hugmyndir Þorgerðar um að draga úr framleiðslunni, þrátt fyrir að þær verði ekki sársaukalausar, en gagnrýnt hana fyrir að vilja ekki taka á vandanum heildstætt, heldur aðeins „plástra hann“ í stað þess að vinna að varanlegri lausn.

Ágúst Andrésson, formaður Landsamtaka sláturleyfishafa.
Ágúst Andrésson, formaður Landsamtaka sláturleyfishafa. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Offramboðið er þó ekki alveg nýtilkomið. Rúmlega þúsund tonn standa enn þá óhreyfð frá fyrra ári, þó nákvæm greining á birgðastöðunni liggi ekki fyrir, og það þrátt fyrir að grettistaki hafi verið lyft í því að koma íslenska lambakjötinu inn á erlenda markaði. Ráðist var í svokallað „krónu-á-móti-krónu“ verkefni þar sem sláturleyfishafar gáfu 200 milljóna króna afslátt af útsöluverðum sínum á móti 200 milljóna króna framlögum ríkisins til þess að koma íslensku lambakjöti í erlendar verslanir. Hefði ekki komið til þessa 400 milljóna króna verkefnis væru birgðirnar líklega tvöfalt á við það sem nú er, áætlar Ágúst Andrésson, formaður Landsamtaka sláturleyfishafa. Staðan hjá sláturleyfishöfunum er í dag veikari en á síðasta ári og hafa sum þeirra því ekki bolmagn til þess að ráðast að nýju í svo kostnaðarsamt verkefni.

Bíða eftir útspili ráðherra

Bændaforystan hefur fundað ítrekað með landbúnaðarráðherra síðan í vor. Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, sagði á fjölmennum hitafundi á Blönduósi í gær að viðræðurnar við ráðherra hafi gengið prýðilega, en þó eingöngu sá hluti sem snýr að offramleiðsluþættinum til framtíðar en ekki birgðavandanum sem nú er uppi.

Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.
Oddný Steina Valsdóttir, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda. Eggert Jóhannesson

Sláturtíðin er hafin og hefst af fullum krafti eftir helgi. Venjulega hafa bændur fengið greitt frá sláturhúsunum á föstudegi vikuna eftir slátrun en þeir eru margir hverjir í reikningsviðskiptum fyrir ýmsum vörum sem nauðsynlegar eru búskapnum, svo sem plasti og áburði, og eru reikningarnir á eindaga núna á haustmánuðum. Ekki náðist í Þorgerði Katrínu við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert