Gerir nokkrar athugasemdir í andsvari

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari mbl.is/Eggert

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari sem sækir málið á hendur Thomasi Möller Olsen, sem ákærður er fyrir að hafa banað Birnu Brjánsdóttur þann 14. janúar síðastliðinn gerir nokkrar athugasemdir við munnlegan málflutning verjanda í andsvari sínu.

Kolbrún byrjar á því að minnast á ákverkana á hnúum Nikolaj Olsen, sem Páll Rúnar Kristjánsson, verjandi Thomasar, vill meina að hafi ekki verið rannsakaðir. „Það kemur fram að báðir voru með lítil sár á hnúunum. Réttarmeinafræðingur og læknir gátu ekki fullyrt um áverkana á Thomasi og það átti líka við um sár á hnúum Nikolaj,“ útskýrir hún.

Þá bendir Kolbrún á að að komið hafi fram í máli Urs Oliver Wiesbrock réttarmeinafræðings að gerandi hefði líklega beitt bæði vinstri og hægri hendi, ekki bara vinstri hendi, líkt og Páll hélt fram í máli sínu, en Nikolaj er örvhentur.

„Það sem sem kom fram í máli Wiesbrock var að þegar einhver kýlir einhvern í andlit eða þar sem eru mjúkvefir þá komi fram roði sem hverfi eftir tvo daga. Myndirnar af ákverkum Thomasar voru teknar fimm dögum eftir atvikið.“

Vildi greina frá uppnámi Thomasar

Þá fór Kolbrún yfir ástæður þess að einn skipverjanna, Ove Heilmann Petersen, vildi gefa skýrslu hjá lögreglu aftur. „Það sem Ove vildi koma á framfæri var að hann hefði rætt við Nikolaj eftir að skipinu var snúið við. Hann vildi koma því á framfæri að þegar hann tjáði Thomasi það í vinnslusalnum að skipinu hefði verið snúið við þá hefði Thomas sagt að sér væri illt, yfirgefið vinnslusalinn og ekki komið aftur. Ove átti einnig að bera vitni fyrir dómi, en ekki náðist í hann.

Kolbrún sagði að aðgerðir lögreglu sem áttu sér stað um borð í Polar Nanoq hafi engu þýðingu í sakamálinu sem hér væri undir, líkt og Páll vildi meina. Hún sagði að skipstjórinn hefði sjálfur tekið ákvörðun um að snúa við og sigla skipinu aftur til Íslands. Það hafi ekki verið gert að kröfu lögreglu.

Páll kom inn á það í sínum málflutningi að einungis væru rúmir 100 kílómetrar í ferðum Kio Rio bifreiðarinnar sem væru óútskýrðir, en Kolbrún segir þá vera um 200. Hún segir að þegar horft sé á þær ferðir sem ákærði lýsir sjálfur, þá sé um að ræða fjórar ferðir fram og til baka úr Hafnarfirði, sem séu um 12 kílómetrar. Því sé í mesta lagi um að ræða 120 til 130 kílómetra sem ákærði geti útskýrt. Bíllinn var hins vegar keyrður 319 kílómetra á meðan Thomas var með hann á leigu. „Þetta eru miklu nær 200 kílómetrum sem ekki voru gerð grein fyrir,“ segir hún.

Hafði ekki tækifæri til að losa sig við sönnunargögn

Páll sagði að Thomas hefði auðveldlega getað hent fíkniefnunum sem hann var með í vörslu sinni fyrir borð, sem og ökuskírteini Birnu og fleiri sönnunargögnum sem beindu athyglinni að honum. Það hafi hann hins vegar ekki gert. Hann hafi þvert á móti verið samvinnuþýður og verið tilbúinn að upplýsa um allt í tengslum við fíkniefnin.

Kolbrún bendir hins vegar á að Thomas hafi verið vaktaður af öðrum skipverjum eftir að skipinu var snúið við, enda hafi hann verið í miklu uppnámi. Hann hafi því ekki haft tækifæri til að losa við sönnunargögn.

Kolbrún svaraði einnig gagnrýni Páls að ekki hefði verið grænlenskur túlkur viðstaddur allar yfirheyrslur. Slíkur túlkur hafi hins vegar ekki verið til taks og að hvorki ákærði né verjandi hefðu ekki gert athugasemdir við að yfirheyrslur færu fram á ensku og dönsku. Löggildur túlkur hefði verið viðstaddur allar yfirheyrslur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert